Sænski fatarisinn H&M seldi vörur fyrir tæplega 2,6 milljarða íslenskra króna í verslunum sínum hér á landi, frá opnun fyrstu verslunarinnar í ágúst á síðasta ári til maíloka á þessu ári. Þetta kemur fram í ársuppgjöri H&M fyrir árið 2017 og hálfs árs uppgjöri fyrirtækisins fyrir desember 2017 til og með maí 2018. Tvær verslanir H&M eru starfræktar hér á landi, en stefnt er á opnun þriðju verslunarinnar hér á landi á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur síðar á þessu ári.

Hagnaður H&M á Íslandi árið 2017 nam ríflega 23 milljónum króna samkvæmt ársreikningi H&M Hennes & Mauritz Ice ehf., sem er rekstraraðili H&M hér á landi. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var einungis 1,9% og skuldir við tengda aðila námu rúmlega 897 milljónum króna. Þessar tölur gefa til kynna að starfsemin hér á landi sé að miklu leyti fjármögnuð með lánsfjármagni. Árlegar leigugreiðslur fyrir húsnæði starfseminnar í Smáralind og Kringlunni nema samtals um 73 milljónum króna. Rekstrargjöld námu tæpum 922 milljónum króna og þar af námu laun og önnur launatengd gjöld rúmlega 261 milljón króna.

Hagnaður dregist saman

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá hefur H&Msamstæðan verið í talsverðum vandræðum á heimsmarkaði undanfarin misseri. Til marks um það dróst hagnaður fyrirtækisins saman um þriðjung á fyrstu sex mánuðum síðasta rekstrarárs og hlutabréfaverð hefur lækkað um rúman þriðjung síðasta árið. Nýlega var greint frá því að H&M sæti uppi með óseldar vörubirgðir á heimsvísu að andvirði tæplega 430 milljarðar króna. Fyrrnefnd staðreynd ásamt hægagangi fyrirtækisins við að bregðast við breyttu neyslumynstri og leggja áherslu á netverslun, eru taldar hafa verið helstu ástæður þess að afkoman hefur versnað svo mikið milli ára. H&M hefur lengi lagt mikla áherslu á að opna mikinn fjölda af nýjum verslunum, til að auka sölu á vörum sínum. Með breyttu neyslumynstri hefur verslun færst mikið yfir á netið og því er talið að þessi áhersla H&M á að opna margar nýjar búðir sé orðin úreld.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .