Fataverslunarkeðjan H&M sem hyggst opna verslanir í Smáralind og Kringlunni næsta haust hefur þegar ráðið tvo verslunarstjóra auk markaðs- og upplýsingafulltrúa.

Var Anna Margrét Gunnarsdóttir ráðin í síðastnefnda starfið, en fjölmiðlasamskipti fyrirtækisins eru þó enn í höndum norska hluta keðjunnar, en þar starfar Kristin Fjeld.

Kristin segir verslunarstjórana tvo vera í þriggja mánaða starfsþjálfun í Póllandi að því er fram kemur í frétt mbl.is .

„Þeir segjast skemmta sér vel með pólskum samstarfsmönnum okkar og við hlökkum mikið til þess að koma þeim af stað á Íslandi,“ segir Kristín, en ráðningarferlið hófst í febrúar.

Til stendur að hitta fleiri umsækjendur í apríl, en ekki er enn ljóst hve margir verði ráðnir, en nú þegar hafa borist ríflega 1.000 umsóknir um störf hjá fyrirtækinu.