Fimmtudaginn 28. september, á morgun, mun H&M - Hennes & Mauritz opna sína aðra verslun á Íslandi, nánar tiltekið á annarri hæð í Kringlunni. Verslunin opnar klukkan 11. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum ótrúlega ánægð með þær frábæru móttökur sem við höfum fengið hér á Íslandi og við hlökkum mikið til að opna hér í hinni geysivinsælu verslunarmiðstöð Kringlunni,“ segir Filip Ekvall svæðisstjóri H&M á Íslandi og í Noregi. Í versluninni verður hægt að finna fatnað fyrir dömur, herra, börn og ungmenni ásamt snyrtivörum og aukahlutum. Verslunarrýmið er 2.300 fermetrar að stærð og er staðsett á annarri hæð þar sem að fataverslun Hagkaups var áður til húsa.

„Við höfum beðið með eftirvæntingu eftir opnuninni og loksins er H&M að opna í Kringlunni. H&M er frábær viðbót við Kringluna og fullkomin leið til að fagna 30 ára afmæli Kringlunnar,“ segir framkvæmdastjóri Kringlunnar Sigurjón Örn Þórsson.