Margir fataframleiðendur hafa að undanförnu stöðvað framleiðslu á loðkanínuklæðnaði vegna gruns um að birgjar þeirra, kanínubændur, misþyrmi dýrunum. Nú síðast ákvað Hennes & Mauritz, eða H&M, að stöðva framleiðslu á slíkum klæðnaði.

Í tilkynningu sem birtist á vef H&M segir að fyrirtækið muni ekki framleiða fatnað úr kanínuull fyrr en tryggt hafi verið að gæðareglum fyrirtækisins sé fylgt til hins ítrasta. Lindex, MQ og Gina Tricot hafa gripið til sömu ráðstafana.

Á dögunum birtu dýraverndunarsamtökin Peta myndskeið þar sem sést að í kínverskum kanínubúum er verið að reita kanínuull af lifandi kanínum. Á myndinni sjást kanínurnar veina af sársauka. Kína framleiðir um 90% af allri kanínuull í heiminum.