H:N Markaðssamskipti hafa bætt við sig sjö nýjum starfsmönnum vegna aukinna umsvifa. Um er að ræða þau Ástrós Kristinsdóttur, Írisi Ernu Guðmundsdóttur, Kötlu Hrund Karlsdóttur, Kríu Benediktsdóttur, Raphaelle Monvoisin, Sindra Frey Guðjónsson og Tryggva Ólafsson Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningunni er starfsferill hinna nýráðnu tíundaður. Tryggvi Ólafsson er ráðinn sem framleiðslustjóri en hann hefur starfað sem umbrotsmaður hjá flestum stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins, nú síðast hjá Fréttablaðinu.

Raphaelle er grafískur hönnuður sem starfaði áður í París hjá leikjarisanum Blizzard Entertainment Europe. Við grafísku deildina bætist einnig Íris Erna Guðmundsdóttir, grafískur miðlari, en hún er sérmenntuð í formhönnun og starfaði áður hjá Prentmet. Þá verður Kría Benediktsdóttir umsjónarhönnuður og stjórnarmaður í Grapíku. Hún er útskrifuð úr LHÍ og hefur áður starfað hjá PIPAR/TBWA, Hvíta húsinu og E&co.

Katla Hrund Karlsdóttir verður viðskiptastjóri en hún er menntuð í sálfræði, markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ. Áður var hún sjálfstætt starfandi markaðsráðgjafi samhliða námi. Við samfélagsmiðladeildina bætast Ástrós og Sindri Freyr.

Sú fyrrnefnda, sem einnig verður viðskiptastjóri, er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað hjá Arion banka og sem aðstoðarmaður dr. Þórhalls Arnars Guðlaugssonar dósents við viðskiptafræðideildina. Sindri Freyr er viðskiptafræðingur sem var áður samfélagsmiðlasérfræðingur hjá Sahara. Samhliða störfum sínum hjá H:N mun hann reka ferðaskrifstofuna eTravel og sinna tónlistarferli sínum.

„Um er að ræða fjölgun og hefðbundna þróun hjá okkur, þvert á stöðvar. Við höfum verið að taka við nýjum verkefnum, bæði stórum og smáum, viðskiptavinum sem kallar á öfluga viðbót. Hópurinn sem við höfum valið að bæta við okkur í þessari ævintýraför er því með fjölbreytta hæfileika, svo sem grafískir hönnuðir og miðlarar, samfélagsmiðlasérfræðingar og sérfræðingar í viðskiptastjórnun. Við sjáum jafnframt fram á að bæta enn frekar í hópinn á komandi misserum,“ segir Ingvi Jökull Logason, framkvæmdastjóri og eigandi H:N Markaðssamskipta.