Gunnar Guðlaugsson nýr forstjóri Norðuráls hefur starfað hjá félaginu síðan 2008, en hann var fyrst ráðinn til að taka við álverinu sem reisa átti í Helguvík. „Þegar aðstæður breyttust þar var ég ráðinn sem framkvæmdastjóri álversins á Grundartanga, árið 2009, og hef ég sinnt því síðan,“ segir Gunnar sem tók við forstjórastöðunni af Ragnari Guðmundssyni í vikunni.

„Það verður ekki ráðið í mitt gamla starf, en auðvitað munu einhver af þeim verkefnum sem ég hef sinnt eða mun taka að mér nú, deilast niður á mitt fólk, enda vinnum við þetta sem hópur. Helsta breytingin fyrir mig verður að þurfa að vinna meira með hagsmunaaðilum innanlands.“

Áður var Gunnar í tíu ár hjá Ísal, m.a. við framkvæmdastjórn rafgreiningar, og þar áður vann hann á verkfræðistofu, eftir að hafa klárað rafmagnsverkfræði í Danmörku. „Ég var í Álaborgarháskóla, en þá var kerfið þannig að maður útskrifaðist ekkert með bachelor gráðu, heldur fór maður bara í fimm ára háskólanám og útskrifaðist beint með mastersgráðu,“ segir Gunnar sem fór út með konu sinni Rögnu Ragnars geislafræðingi og eldri dóttur þeirra sem þá var þriggja ára gömul.

„Síðan fæddist yngri stelpan okkar þarna úti, en það var mjög gott að búa í Danmörku. Það sem kom kannski mest á óvart var hvað veðrið er miklu betra þarna úti heldur en hérna heima á Íslandi, jafnvel þegar þeir hafa það sem þeir kalla rigningarsumur, þá er miklu hlýrra. Áður hafði ég klárað það sem hét held ég tæknistúdentspróf úr Tækniskólanum sem var þá, eftir að hafa farið í rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík rétt upp úr 1980.“

Frítíma sínum eyðir Gunnar eins mikið með barnabörnunum sínum þremur og hann getur, en þau eru á aldursbilinu tveggja til átta ára. „Þetta er gríðarlega skemmtilegur aldur, en ég hef aðeins verið að draga þennan elsta, nafna minn Gunnar Karl, með mér út á golfvöll þar sem við höfum verið að æfa okkur saman. Ég spila svolítið golf, þó ég fari nú kannski aldrei að lifa af því, en við hjónin förum stundum í golfferðir til Spánar eða eitthvert annað. Síðan er frábært að spila golf hérna í sumarbirtunni á Íslandi, því fram eftir vori og í allt sumar er hægt að spila heilan golfhring eftir vinnu,“ segir Gunnar.

„Svo hef ég gríðarlega gaman af allri útivist, bæði göngum og aðeins veiðum, þá bæði stangveiði og skotveiði, þó að minni tími hafi gefist fyrir það undanfarið. Það sem stendur upp úr í útivistinni er að ég hef nokkrum sinnum farið á Hvannadalshnjúk, enda er ég fæddur og uppalinn við rætur hnjúksins en systir mín er þar bóndi. Það var ekki góður gjörningur að endurmæla hæð Hvannadalshnjúks, í mínum huga er hann ennþá 2.119 metrar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .