Mál Heiðars Más Guðjónssonar, eiganda fjárfestingafélagsins Ursus, gegn Seðlabanka Íslands og Eignasafni Seðlabanka Íslands var fellt niður í morgun að hans eigin kröfu. Heiðar hefur höfðað nýtt mál gegn sömu aðilum með hærri bótakröfu. Greint er frá þessu á mbl.is

Heiðar Már krafðist í fyrra málinu 1,4 milljarða króna bætur vegna tjóns sem hann segist hafa orðið fyrir við söluferli Sjávár árið 2010. Hann segir í samtali við mbl.is að í nýrri stefnu krefjist hann tæplega tveggja milljarða króna í bætur. Heiðar þarf þó að greiða málskostnað upp á 1,1 milljón króna vegna málsins sem nú hefur verið fellt niður.

Málin tvö byggja á sama grunni, þ.e. að bindandi samkomulag hafi náðst við Eignasafn Seðlabanka Íslands um að hópur fjárfesta undir forystu Ursus keypti hlut í Sjóvá á ákveðnu gengi og að hópurinn fengi svo rétt til að auka hlut sinn. Ekki hafi verið staðið við þetta samkomulag. Í samtali við mbl.is segir Heiðar að í fyrra málinu hafi ekki verið tekið tillit til heildartjóns hans og að honum hafi fundist óþarfi að „sleppa þeim með þennan hálfa milljarð“.