Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla var fenginn af heildarsamtökum á vinnumarkaði að semja tillögur að nýju ferli við gerð kjarasamninga fyrir heildarsamtök vinnumarkaðar. Frá þessu er greint í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins .

Þar kemur meðal annars frama að: „Almenn varnaðarorð Steinars eiga brýnt erindi til Íslendinga. Íslendingar hafa ekki dregið lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu af ýktum hagsveiflum þar sem á skiptast ofþensluskeið og langvarandi kreppur með viðeigandi umbótum. Að mati Steinars geta launahækkanir sem ekki samrýmast verðbólgumarkmiði Seðlabankans og meðfylgjandi of hröð kaupmáttaraukning leitt til harkalegrar niðursveiflu. Af þeirri ástæðu sé afar brýnt að koma í veg fyrir of miklar launahækkanir.“

Steinar bendir einnig á það að miklar launahækkanir geta orðið þess valdandi að verð á innlendri vöru hækki og til að koma  í veg fyrir aukna verðbólgu þá þurfi gengi krónunnar að styrkjast. „Afleiðingin verði skert samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Hætta sé á ofþenslu og aukinni skuldsetningu heimila. Á endanum eigi sér stað leiðrétting á ósjálfbæru ástandi með gengisfalli og kaupmáttarrýrnun almennings, þ.e. harkalegri niðursveiflu.

Hann bendir á að rannsóknir og gögn víðs vegar að styðji að hóflegar launahækkanir leiði af sér betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði beint og óbeint, með lægri vöxtum og veikara gengi. Þetta tryggi aukna atvinnuþátttöku og minna atvinnuleysi.“

Nýtt samningslíkan getur borið ávöxt

„Að mati Steinars verður nýtt samningslíkan í fyrsta lagi að byggja á sameiginlegum skilningi aðila á vinnumarkaði á nauðsyn þess að launaþróunin sé sjálfbær. Skilningur verði að ríkja á að „hóflegar launahækkanir eru almannagæði sem koma öllum vel“. Sátt þurfi að ríkja um að niðurstaðan sé sanngjörn og að ekki ríki tilfinning um að ákveðnir hópar fái óeðlilega stóran skerf í sinn hlut. Aukinn hagnaður fyrirtækja þurfi að skila sér í aukinni fjárfestingu en ekki einungis í hærri arðgreiðslum og launum æðstu stjórnenda.

Í öðru lagi þurfi að ákveða hver geri fyrsta kjarasamninginn og setji þannig viðmið um launaþróunina í kjölfarið. Á Norðurlöndum sé framleiðsluiðnaðurinn í þessu hlutverki sem fulltrúi útflutningsgreina. Þar sé nauðsynlegt að launaþróunin tryggi viðunandi og sjálfbæra þróun hagkerfisins án þess að verðbólga fari umfram markmið. Á Íslandi þyrfti að gera kjarasamninga á grundvelli atvinnugreina í stað starfsgreina. Ekki sé augljóst hvaða atvinnugrein geti gegnt þessu hlutverki á Íslandi en hugsanlegt sé að samningsfordæmið verði á sviði fiskvinnslu, orkufreks iðnaðar ásamt annari framleiðslu. Eins er bent á að gera megi miðlægan samning með afmörkuðu svigrúmi í fyrirtækjasamningum.

Í þriðja lagi þurfi að tryggja að viðmiði fyrsta samningsins verði fylgt á öllum vinnumarkaðnum. Það þurfi að koma í veg fyrir að hópar með sterka samningsstöðu fái meira í sinn hlut en samkvæmt viðmiðinu sem verði til þess að aðrir komi á eftir í sömu erindagjörðum. Því sé best að tryggja stöðuga hlutfallslega launaþróun sem sé jöfn í öllum atvinnugreinum en með rými fyrir ákveðinn sveigjanleika“ segir í frétt Samtaka atvinnulífsins.

Að lokum kemur fram að nauðsynlegt sé að samtök á vinnumarkaði hugi að breytingum á skipulagi sínu til að kjarasamningar geti leitt til langvarandi stöðugleika launa- og atvinnuþróunar sem að samræmist markmiðum um vöxt hagkerfisins.

Hægt er að nálgast skýrslu Holden hér.