Gjaldeyrishöftin verða lögfest samkvæmt nýju frumvarpi sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Sú lagastoð sem höftin hafa stuðst við fram að þessu fellur úr gildi í ágúst og hefur Morgunblaðið eftir Birgi Tjörva Péturssyni, héraðsdómslögmanni, að nauðsynlegt sé að styrkja lagagrundvöll gjaldeyrishafta. Birgir hefur fram að þessu gagnrýnt gjaldeyrishöftin á þeirri forsendu að Seðlabankinn hafi gengið lengra en lögmætisregla íslensks réttar heimilar. Birgir segist ekki geta fullyrt hvort nýja frumvarpið standist stjórnarskrá.

Frumvarpið felur ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á þeim reglum sem nú gilda um fjármagnsflutninga fyrir utan að hert verður lítillega á reglum um gjaldeyri ferðamanna.