H&M hefur selt fatnað fyrir 1,8 milljarða króna hér á landi á þeim ríflega sex mánuðum sem liðið hafa frá opnun verslunarinnar í Smáralind. Ísland er í þriðja til fjórða sæti yfir þau lönd sem höfðu hæstu meðalveltu á  H&M verslun á síðasta ársfjórðungi. Þjóðirnar sem eru í sætunum fyrir ofan Ísland eru allar mun fjölmennari.

Hægst á sölu frá opnun H&M  seldi fyrir 720 milljónir króna hér á landi á síðasta ársfjórðungi, sem nær frá 1. desember til 28. febrúar. Það samsvarar átta milljónum króna á dag eða fjórum milljónum króna á verslun á dag.

Veltan dróst hins vegar saman  frá fyrri  ársfjórðungi  um 26%. Þó verður að hafa í huga að fyrri ársfjórðungur hófst 1. september, viku eftir að H&M opnaði fyrstu verslunina í Smáralind, en honum lauk þann 30. nóvember. Önnur verslun  H&M  var opnuð hér á landi í Kringlunni þann 28. september.

Sala fyrstu sex dagana frá opnun H&M verslunarinnar í Smáralind, frá 26. ágúst til 31. ágúst, nam 156 milljónum króna eða sem samsvarar 26 milljónum króna á dag. Frá opnun H&M hefur meðalvelta á verslun á dag numið 5,5 milljónum króna. Í þessum tölum er ótalið hve Íslendingar hafa verslað mikið í  H&M  á erlendri grundu en fatarisinn hafði á síðustu árum verið það  fatamerki  sem hefur haft hæsta markaðshlutdeild hér á landi þrátt fyrir að hafa ekki rekið verslun á Íslandi. Meniga  áætlaði nokkru áður en H&M opnaði í Smáralind að markaðshlutdeild H&M á fatamarkaði meðal Íslendinga væri 22%. H&M  stefnir á að opna þriðju verslunina hér á landi á Hafnartorgi sem nú rís við hlið Kolaportsins í miðborg Reykjavíkur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .