Bandaríski byggingavöruverslunarrisinn Home Depot tilkynnti í dag um meiri tekjur og betri afkomu á öðrum ársfjórðungi en spáð hafði verið. Samkvæmt umfjöllun MarketWatch á verslunarkeðjan velgengni sína að miklu leyti húsnæðisskorti að þakka; lítið hafi verið byggt af nýju húsnæði nýlega, og horfur séu á að lítið verði byggt á næstunni.

Fólk taki því málin í sínar eigin hendur, í bókstaflegri merkingu, og stækki frekar við sig með viðbyggingum.

Húsnæðisrannsóknarstofnun Harvard spáir því að Bandaríkjamenn muni eyða 340 milljarð dollurum, um 36 þúsund milljörðum króna, í viðgerðir og viðbætur heimila sinna á árinu, sem er 7,5% hækkun frá því í fyrra. Stofnunin bendir þó á að hluta þeirrar upphæðar megi rekja til náttúruhamfara.

Eigið fé Bandaríkjamanna í húsnæði sínu fer vaxandi, en húsnæðisskorturinn veldur því að fólk notar það aukna svigrúm sem við það skapast frekar í að bæta eigin húsnæði.