Hagar hafa verið mikið til umræðu undanfarið, ekki síst vegna komu Costco til landsins. Frá opnun verslunar Costco í Kauptúni þann 23. maí til 1. desember lækkaði hlutabréfaverð í Högum um þriðjung. Undanfarin misseri hefur verið hagræðing í fyrirtækinu, þar sem flatarmál verslana hefur verið minnkað og öðrum verslunum á borð við Debenhams, Topshop og Karen Millen alfarið lokað.

Aukin hagkvæmni hefur svolítið verið þemað hjá ykkur undanfarið. Hvernig hefur það gengið?

„Það hefur gengið vel,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. „Við höfum verið að straumlínulaga reksturinn. Það vita allir hvernig húsnæðisverð hefur þróast, hvort sem það er atvinnu- eða íbúðarhúsnæði. Leiga og annar kostnaður endurspeglast í því hvað húsnæði kostar. Sá hluti hefur vaxið hlutfallslega undanfarin tíu til fimmtán ár.

Að sama skapi er ákveðin verslun sem fer fram utan hefðbundinna verslana á Íslandi. Það er netverslun, sem er að aukast og í bland við aukin ferðalög Íslendinga. Ákveðnir vöruflokkar fara í meiri mæli út úr hefðbundnum verslunum en aðrir. Sérvara gerir það frekar en dagvara. Á síðasta ári var til dæmis meira en önnur hver flík sem Íslendingur kaupir keypt í útlöndum. Fatakaup Íslendinga fara því að stórum hluta fram erlendis.

Fyrir hrun var þetta hlutfall um 20% þannig að þetta er gjörbreytt aðstaða fyrir verslun á Íslandi. Auðvitað eru alþjóðlegar verslanir eins og H&M að koma hingað og vonandi kemur þá hluti af þessari verslun til baka. Hins vegar ferðast Íslendingar mjög mikið og hafa sennilega aldrei gert meira af því. Erlendis er annað úrval og oft betra verð sem gerir það að verkum að fólk nýtir tækifærið og gerir innkaup í þessum ferðum.“

Enginn málsvari verslunar á þingi

Finnur segir hugsunina hjá Högum alltaf hafa verið þá að hugsa fyrst og fremst um eigin viðskiptavini en ekki hvað keppinautarnir geri. „Hvernig getum við nálgast okkar viðskiptavini og gert betur fyrir okkar viðskiptavini? Það að horfa mikið á hvað hinir eru að gera hefur aldrei verið í fyrsta sæti hjá okkur. Auðvitað fylgjumst við vel með og þurfum að bregðast við ef það er eftirspurn sem við sjáum hjá okkar kúnnum. Það er stöðugt í gangi. Við horfum á hluti eins og ávexti og grænmeti – Bónus er stærsti viðskiptavinur íslenskra garðyrkjubænda og vinnur mjög þétt með þeim. Það er okkar sérstaða og styrkur í þeim vöruflokki.“

Hvernig heldurðu að ný ríkisstjórn verði fyrir verslun í landinu?

„Ég hef oft sagt að það sé athyglisvert að verslunin eigi engan ráðherra og að það sé enginn málsvari verslunar á þingi. Aðrar atvinnugreinar eru með málsvara. Þar eru einstaklingar sem eru stoltir af þeim atvinnugreinum. Íslensk verslun er að takast á við erlenda samkeppni, algjörlega hömlulausa samkeppni, án allra varna eða styrkja, og er að standa sig vel. Það er alveg ástæða til þess að þingmenn átti sig á því og skynji mikilvægi þess að það sé öflug verslun í landinu. Margar ríkisstjórnir, ekki bara þessi ríkisstjórn, eyða ekki miklum orðum í verslun eða neytendamál í sínum stjórnarsáttmála. Hins vegar ætla ég að vera bjartsýnn fyrir hönd neytenda um að þessi nýja stjórn hugi að þeirra málum.

Almenn velferð byggir á frelsi í viðskiptum. Menn geta talað um breytt samkeppnisumhverfi á Íslandi, sem hefur fært neytendum og almenningi bætt kjör á þessu ári, sem ætti að vera fordæmi til að auka enn verslunarfrelsi með almennar neysluvörur – almenningi til hagsbóta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .