Frá því desember hefur fjöldi iPhone-notenda í Bandaríkjunum höfðað mál gegn Apple . Málsóknirnar byggja á því að fyrirtækið hafi viljandi haft nýjustu hugbúnaðaruppfærslurnar þannig að þær hægðu á eldri símum. Þetta hafi síðan leitt til þess að notendur eldri síma hafi neyðst til að kaupa sér nýjan. Fjallað eru um þetta í Wall Street Journal.

Forsvarsmenn Apple viðurkenndu í desember að nýjustu uppfærslurnar hægðu á eldri gerðum iPhone en sögðu að það hefði verið gert til að bæta endingu rafhlaðanna í eldri símunum. Í kjölfarið buðu þeir notendum síma sem ekki voru lengur í ábyrgð að skipta um rafhlöðu og staðinn fyrir að greiða 79 dollara fyrir þurftu notendurnir að greiða 29 dollara.

Vegna þessarar ákvörðunar er talið að Apple muni verða af 10 milljarða dollara tekjum á þessu ári. Ástæðan er sú að í staðinn fyrir að  kaupa nýja síma munu fjölmargir skipta um rafhlöðu í eldri gerðum.

Í dag mun koma í ljós hvort öll málin gegn Apple verði tekin saman í eina stóra hópmálsókn. Gríðarlega mikið er í húfi fyrir Apple . Árið 2010 höfðuðu eigendur iPhone 4 mál eftir að í ljós kom galli, sem olli því að símtöl áttu það til að berast ekki. Það mál kostaði fyrirtækið 315 milljónir dollara eða ríflega 30 milljarða króna.

Auk tekjusmissis gæti Apple þurft að greiða bætur ef fyrirtækið tapar málinu. Það eru því miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir Apple . Holger Mueller ,sérfræðingur hjá Constellation Research , segir að fjárhagslegu hagsmunirnir séu ekki aðalmálið heldur miklu frekar þeir álitshnekkir sem iPhone-vörumerkið gæti orðið fyrir ef dómsmál dregst á langinn.