Hillary Clinton, ein þeirra sem vonast eftir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna á næsta ári, fékk það óþvegið í kappræðum flokksins í Des Moines í gær. Talið var að Clinton ætlaði að sýna mikinn styrk í kappræðunum í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París en þess í stað fékk hún trekk í trekk að heyra það frá þeim Bernie Sanders og Martin O'Malley, mótherjum hennar i kosningunum.

Ljóst var að allir frambjóðendur fóru varlega í ummælum sínum til að bera virðingu fyrir þeim sem féllu í Frakklandi, en Sanders gaf þó í skyn að Clinton hefði átt þátt í upprisu hryðjuverkasamtaka á borð við ISIS með því að samþykkja innrásina í Írak árið 2002.

,,Ég myndi segja að þessi hörmulega innrás í Írak, sem ég mótmælti harðlega á sínum tíma, hafi komið öllu svæðinu þarna í uppnám og leitt til upprisu Al Quaeda og ISIS," sagði Sanders.

O'Malley gagnrýndi einnig þróunina í Mið-Austurlöndum í forsetatíð Barack Obama, en Clinton var innanríkisráðherra fyrstu fjögur árin. Clinton varðist þessum ummælum en hélt áfram að fá á sig skot þegar umræðan flutti sig yfir til heimalandsins. Var hún meðal annars harðlega gagnrýnd fyrir tengsl sín við fjármálageirann.

,,Af hverju hefur Wall Street verið helsti styrktaraðili Hillary Clinton á pólitíska ferli hennar? Kannski eru þeir heimskir og vita ekki hvað þeir eru að fara að fá, en ég held ekki," sagði Sanders. Clinton svaraði því að þetta væri persónuleg árás og að stærstur hluti af fjárframlögum til hennar væru smáar upphæðir fá kvenfólki víða um landið. Uppskar hún mikið lófatak í kjölfarið.

Hægt er að lesa ítarlega um kappræðurnar í grein New York Times .