*

mánudagur, 28. maí 2018
Innlent 17. júlí 2017 12:04

Of hörð gagnrýni á íslenska verslun

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildsölunnar Innnes, segir viðbrögðin við komu Costco ekki endilega hafa komið á óvart.

Ásdís Auðunsdóttir
Eva Björk Ægisdóttir

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildsölunnar Innnes og formaður Félags atvinnurekenda, segir breyttar neysluvenjur þjóðarinnar valda því að smásala hefur tekið miklum breytingum að undanförnu. Magnús segir það ekki alltaf raunhæft að setja sömu kröfur á íslenskar verslanir um að þær geti skaffað alveg sömu vöru og þjónustu og erlendar verslanir sem eru á milljóna markaði. „Það er ákveðinn stofnkostnaður sem fylgir því að þróa eitthvað og þá skiptir máli hvort að markhópinn er tvær milljónir eða fimmtán þúsund manns, það er munur þar á. Íslenskri verslun hefur ekki verið hampað mikið í gegnum tíðina og í raun þvert á móti. Það má varla koma frétt erlendis frá um einhverja verslunakeðju án þess að það sé um leið skammast út í það sem er verið að gera hér á landi.

Það er engin atvinnugrein sem er sett í jafn mikinn forgang þegar kemur að verðkönnunumi og ég er ekkert að finna að því enda er maturinn okkur nærri, en í mörgum vöruflokkum eru þeir að selja vörurnar sína á mjög lágri framlegð. Ég þekki nokkuð vel til smásölumarkaðsins í nágrannalöndum okkar og þar er framlegð og álagning í matvöruverslun mun, mun hærri en gengur og gerist hér á landi. Það er t.d. engin matvöruverslun erlendis sem myndi sætta sig við að selja mjólk í kæli með 5% álagningu til langs tíma.“

Þjóðaríþrótt okkar að versla erlendis

Það er ekki hægt að taka viðtal við þig án þess að spyrja þig aðeins út í Costco, það virðist sem smásölurisinn fari í raun algerlega gegn þeirri þróun á smásölumarkaðnum sem þú lýstir hér áðan. Koma viðbrögðin við komu Costco ef til vill á óvart?

„Sko já og nei. Það kemur ekki á óvart að Costco nái þessari athygli, við erum að tala um næststærsta smásala í heimi og þeir kunna leikinn alveg upp á tíu og hafa bara gert þetta glæsilega vel. Í sumum tilvikum hélt ég að Íslendingar myndu fara rólegar af stað í ákveðnum vöruflokkum en á móti er óhætt að fullyrða að við erum kaupglöð þjóð og það má jafnvel segja að það sé þjóðaríþrótt okkar að versla erlendis. Við erum veiðimannasamfélag og við erum alltaf að ná í einhvern afla sem við getum stært okkur af og sagt „þetta voru góð kaup“ og svo framvegis. Það er parturinn af kúltúrnum okkar og ég held að það sé það sem Costco hafi áttað sig á. Þeir hafa áttað sig á kúltúrnum og þjóðarsálinni og hafa algerlega hitt í mark. Innnes er í nokkrum viðskiptum við Costco sem hafa gengið vel og við viljum gjarnan auka við þau.“

Áhrif Costco á markaðinn eru ef til vill nokkuð meiri en margir höfðu búist við, telur þú að þetta sé ástand sem sé komið til að vera eða telur þú að verslunin muni á einhvern hátt jafna sig á næstu misserum?

„Þetta mun klárlega jafna sig en það er alveg klárt að það verða áhrif. Þetta er ekki aðili sem er að fara að detta niður í 2-3% markaðshlutdeild heldur er þetta þungavigtarfyrirtæki sem er komið til að vera. Hinn almenni neytandi er hins vegar alltaf að skjótast út í búð og það er mjög gott aðgengi að matvöruverslun á Íslandi, margar búðir þar sem þú getur lagt alveg upp að hurðinni og ert fljótur að ná í vörurnar.

Í sumum tilvikum er jafnvel boðið upp á sólarhringsopnun. Þú ert ekki að fá þessa þjónustu í Costco, þar eru raðir, bið, það er langt að fara og barátta um bílastæðin o.fl. Þannig að ég reikna nú frekar með því að þetta muni sjatna og fara á ákveðinn stað, en að sama skapi ef raðir styttastog aðgengið verður auðveldara þá verður það hvati fyrir neytendur til að koma.“

Viðtalið við Magnús Óla má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.