Heildarvelta með skuldabréf í Kauphöllinni frá janúar til september árið 2015 nam tæpum 2.881 milljarði króna og velta með hlutabréf nam 523 milljörðum á sama tíma. Það fjármálafyrirtæki sem hafði mesta veltu á viðskiptum með skuldabréf það sem af er ári er MP banki með 23% hlutdeild en Landsbankinn er í öðru sæti með 21% hlutdeild.

Á sama tíma fyrir ári var Landsbankinn í efsta sæti með 20% hlutdeild og yfir allt árið trónaði hann einnig á toppnum með tæpa 21% hlutdeild á skuldabréfamarkaði. Á Aðalmarkaði hefur Landsbankinn einnig vinninginn með 29% hlutdeild og á eftir honum kemur Arion banki með 23% hlutdeild.

Á sama tíma í fyrra var Arion banki með mestu hlutdeildina eða 27% og hélt toppsætinu yfir allt árið með 27% hlutdeild í miðlun hlutabréfa. Frá því á sama tíma í fyrra hefur hlutdeild Landsbankans vaxið um 28% og hlutdeild Arion dregist saman um 17%.

MP banki og Straumur

Miklar breytingar hafa verið á fjármálafyrirtækjum landsins á árinu sem hafa ber í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar. Stærsta breytingin er sú að MP banki og Straumur fjárfestingabanki voru sameinaðir í júní. Það gerir það að verkum að frá því í júlímánuði á þessu ári hefur Straumur enga hlutdeild af viðskiptum á verð­ bréfamarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .