Lagning sæstrengs til Evrópu er líklega stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir. Margt bendir til þess að áhrif sæstrengs myndu stórbæta lífskjör Íslendinga.

Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Til viðbótar við allt framangreint sagði Hörður að færa mætti rök fyrir því að lagning sæstrengs gæti aukið alþjóðlegt vægi landsins.

Í máli Harðar kom fram að ekki stæði til að rjúka til og leggja sæstreng til Evrópu. Hann sagði þó mikilvægt að rannsóknar- og greiningarvinna færi fram á næstu árum og að allir kostir yrðu skoðaðir til hlítar. Hann sagði að lagning sæstrengs til Evrópu væri ekki einkamál Landsvirkjunar eða raforkufyrirtækja, heldur væri þetta mál allrar þjóðarinnar.

Í erindi sínu rakti Hörður þá kosti sem þegar hafa komið fram um lagningu sæstrengs og vísaði m.a. til skýrslu sem unnin var af GAMMA fyrir Landsvirkjun í fyrra þar sem fram kom að slíkar framkvæmdir gætu leitt af sér að Landsvirkjun yrðu nokkurs konar „olíusjóður“ Íslands. Hann sagði að allt benti til þess að þrátt fyrir að hluti orkunnar yrðu fluttu úr landi í gegnum sæstreng myndi það fjölga störfum á Íslandi. Ekki væri um að ræða að sæstrengur kæmi í stað annarra verkefna, heldur yrði hann til viðbótar við önnur verkefni. Þá sagði Hörður að kanna þyrfti hvaða áhrif sæstrengur myndi hafa á útsöluverð orku til heimila, þó ólíklegt væri að það myndi hækka.