Verðmæti þeirrar orku sem fer forgörðum í lokuðu kerfi er um 15-20 milljarðar króna á ári miðað við meðalorkuverð í Bretlandi.

Þetta kom fram í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Hörður fór ítarlega yfir þá möguleika sem gætu falist í því að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands eða meginlands Evrópu. Hann sagði að nýta mætti þá orku sem nú þegar hefur veri virkjuð mun betur en nú er gert en tók fram að fjöldi dýrari orkukosta yrðu seint eða aldrei nýttur án aðgangs að markaði sem greiðir kostnaðarverð fyrir orkuna.

Hörður sagði þrátt fyrir þá gagnrýni sem komið hefur fram á lagningu sæstrengs yrði það þó svo að iðnfyrirtæki myndu áfram hafa aðgang að samkeppnishæfum kjörum og ítrekaði að það þjónaði ekki hagsmunum orkufyrirtækja að hrekja iðnað úr landi. Því stæði lífvænlegum iðnaði engin ögn a lagningu sæstrengs.

Rétt er að minna á að á ársfundi Landsvirkjunar í fyrra var einnig nokkuð fjallað um mögulega lagningu sæstrengs en þá var sú umræða á frumstigi og farið yfir hana í grófum dráttum. Hörður fór mun ítarlega yfir kosti og galla þess að leggja sæstreng í erindi sínu í dag. Hann ítrekaði þó að ekkert hefði verið ákveðið í þessum efnum þó það hefði verði rætt og það tæki í það minnsta þrjú ár að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs og það yrði ekki gert nema um það ríki breið sátt. Þá tök Hörður einnig fram að Landsvirkjun myndi ekki leggja sæstrenginn þannig að fyrirtæki gæti „ekki stolist til þess að byrja að leggja streng,“ eins og hann orðaði það sjálfur.