Hörður Guðmundsson, frumkvöðull og stúdent, gefur kost á sér sem formaður Heimdallar á aðalfundi félagsins þann 22. september næstkomandi í Reykjavík. Bryndís Bjarnadóttir, stjórnmálafræðinemi, gefur kost á sér sem varaformaður Heimdallar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar kemur fram að framboðið vilji leggja áherslu á að efla ungt fólk enn frekar til áhrifa í stjórnmálum og standa vörð um einstaklingsfrelsi og málefni ungs fólks. Það vilji auka þátttöku ungs fólks í ákvarðanatökum á vettvangi borgarstjórnar, tryggja lækkun útsvars, standa vörð um einstaklingsfrelsi íbúanna og forgangsraða skattfé í þágu íbúanna en ekki í þágu gæluverkefna stjórnmálamanna. Umfram allt þurfi að berjast gegn forræðishyggju stjórnvalda og stuðla að frjálsara, friðsælla og betra samfélagi fyrir alla.

Hörður er 19 ára og einn meðstofnanda Study Cake, fyrirtækis úr röðum StartUp Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands (VÍ) vorið 2015 og var virkur í félagslífi skólans á námstímanum. Sat hann m.a. í markaðsnefnd Nemendafélags VÍ 2012-2013, stjórn Verzlunarskólablaðsins 2014-2015 auk þess sem hann stofnaði Seðlabanka NFVÍ sem hélt uppi fræðslu um viðskipta- og efnahagsmál. Hörður hefur starfað sem blaðamaður hjá Luxemburger Wort og hjá KPMG í Luxemborg. Hörður hefur verið virkur í starfi Heimdallar síðan 2011.

Bryndís er 22 ára stjórnmálafræðinemi við Háskóla Íslands.Hún lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík (MR) vorið 2013 og tók virkan þátt í félagslífi skólans. Hún sat m.a. í ritnefnd Skólablaðsins Skinfaxa og lagatúlkunarnefnd skólans. Bryndís hefur verið virk í starfi Heimdallar frá 2013 en hún sat í stjórn Heimdallar 2013-2014 og 2014-2015. Í sumar stundaði hún nám í stjórnmálafræði við Colombia háskóla í New York.

Með Herði og Bryndísi standa tíu einstaklingar sem bjóða fram krafta sína í stjórn Heimdallar. Þau eru: Andrea Björk Elmarsdóttir laganemi við Háskólann í Reykjavík og stúdent úr Verzlunarskóla Íslands, Andrea Gunnarsdóttir stúdent úr Verzlunarskóla Íslands og situr í stjórn ungmennaráðs UN Women, Ágúst Páll Haraldsson stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík og starfsmaður Arion banka, Árni Steinn Viggósson, starfsmaður 365 og stúdent úr Verzlunarskóla Íslands, Haraldur Garðarsson nemi við Iðnskólann í Reykjavík, Indiana Svala Ólafsdóttir starfsmaður Rio Tinto Alcan, Karólína Ólafsdóttir nemi við Verzlunarskóla Íslands og fjármálastjóri Nemendamóts Verzlunarskóla Íslands,  Sara Árnadóttir, verkfræðinemi við HR, Sigurgeir Jónasson, stúdent úr Verzlunarskóla Íslands og starfsmaður Epli, Vífill Sverrisson, tölvunarstærðfræðinemi við Háskóla Íslands og stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík.