Kaupmáttur launa gagnvart mat og drykkjarvöru er 20% hærri á Íslandi en í Finnlandi, og meðal Íslendingur því fljótari að vinna fyrir matarkörfunni en Finni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samtaka atvinnulífsins .

Meðal barnlaus Íslendingur er sagður vera 8 klukkustundir að vinna fyrir mánaðarlegum útgjöldum til mat- og drykkjarvara samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins, en sambærilegur Finni 9,5 klukkustundir.

Bent er á að í þeim löndum þar sem laun séu hvað hæst sé verðlag alla jafna einnig hátt. Því verði sanngjarn samanburður milli landa að taka tillit til bæði launa og verðlags, þar sem kaupmáttur launa – laun leiðrétt fyrir verðlagi – gefi besta mynd af lífskjörum í viðkomandi landi.