Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir horfur á Íslandi jákvæðar, hagvöxtur sé að færast í aukana og búast þeir við að hann fari framúr 4,5% á árinu, drifinn áfram af sterkri innlenndri eftirspurn og ört vaxandi ferðamannaiðnaðinum. Eftir það muni slakna á vextinum þegar stefnumarkandi aðgerðir til að draga úr of mikilli þennslu og verðbólgu fari að hafa áhrif.

Verðbólga fari framúr markmiðum

Þetta kemur fram í skýrslu sem sjóðurinn birti í gær en þar segir að verðbólga hafi verið 1,7% í maímánuði en haldið sé aftur af henni með lækkandi innflutningsverðum og styrkingu krónunnar. Samt sem áður búast þeir við að hún fari fram úr 2,5% verðbólgumarkmiðum Seðlabankans á árinu og nái hámarki á næsta ári áður en hún lækki á ný.

Er það vegna mikilli hækkana í nýlegum kjarasamningum en þeir búast við að launahækkun muni draga úr samkeppnishæfni landsins. Telja þeir aðaláhyggjuefni landsins sé að ef ekki sé haldið aftur af of miklum vexti geti hagkerfið ofhitnað.

Endurkoma landsins á fjármálamarkaði

Sérfræðingar stofnunarinnar hrósa jafnframt stjórnvöldum í landinu fyrir aðgerðir sínar til að leysa þau vandamál sem hér mynduðust eftir hrun, eins og gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Þær ásamt jákvæðum þjóðhagslegum aðstæðum ættu að styðja við endurkomu landsins inná alþjóðafjármálamarkaði.

Jafnframt fagna þeir lögum um fjármálastöðugleika því þær búa til regluverk sem festi í sessi aðhald í fjármálum, hvort tveggja fyrir ríki og sveitarfélög. Að auki hvetja þeir stjórnvöld til að endurskoða opinber útgjöld til lengri tíma með það að markmiði að draga úr kostnaði í heilbrigðis- og menntageiranum ásamt almennum fjárfestingum, sem og að íhuga frekari umbætur á virðisaukaskattslögum.