Böðvar Markan, eigandi pípulagningaþjónustunnar B. Markan ehf. hefur verið í pípulögnum í þrjátíu ár. Segir hann ýmsa í byggingargeiranum hafa lært af því að brenna sig á því að hafa of mikið umleikis í hruninu.

Vilja öryggi í stað áhættu

„Nú er maður meira að spila þetta eins og á píanó, maður tekur það sem maður kann og vill vera með ákveðið öryggi í staðinn fyrir að taka áhættu,“ segir Böðvar sem er með 8 starfsmenn í vinnu hjá sér.

„Auðvitað gæti maður alveg helt sér í núna að ráða fullt af mönnum og taka allt að sér og vera í óvissu með hlutina eins og stundum vill vera á þessu blessaða landið. En maður er kannski búinn að brenna sig á því.“

Greinilega hörgull á mönnum

Böðvar segist ekki hafa tekið jafn mikinn skell eins og kannski þeir sem voru fyrst og fremst í nýbyggingum, en hann tekur fyrst og fremst að sér viðhaldsvinnu í eldri húsum.

„Þetta er bara hægt og bítandi verið á leiðinni upp og það er búið að vera mikið álag núna upp á síðkastið, svona eftir sumarið eiginlega, það er mikið hringt og mikill erill. Því fylgir þó ekki endilega eitthvað í vasann, en það er greinilega hörgull á okkar mönnum,“ segir Böðvar sem nefnir að ekki þurfi mikið af stórum verkefnum eins og núna koma Costco til þess að það vanti töluvert af fólki.

„Það er eitthvað um að menn séu farnir að flytja inn fólk aftur. Það eru kannski ekki margir með pípulagningarfyrirtæki þar sem eru 20 manns eða fleiri, þannig að þú sérð að það þarf ekki mikið út af bera ef eitt risastór verkefni bætist við. Þá hafa kannski tveir meistarar verið að taka það saman.“

Undirboð vandamál

Böðvar segir undirboð vera vandamál í geiranum samt sem áður.

„Það hefur lengi staðið til að reyna að ná betri kjörum við starfsmenn og menn eins og ég erum virkilega að reyna að halda þeim sem eru góðir. Þá vill maður hækka verðin til að geta boðið upp á þetta, en það er töluvert um að menn séu að undirbjóða hvorn annan og þá takist þetta ekki jafnvel og menn vilja sjá,“ segir Böðvar sem fagnar því að samfélagið sé að taka við sér.

„Ég finn alveg fyrir því, menn eru að rétta úr kútnum og þeir sem fengu skell, þeir hafa verið að ná sér á ný, eins og við til dæmis, við gerðum það en við erum að komast upp aftur.“