„Við erum búin að vera með opið núna í maí komandi í átta ár, en á þessum tíma hefur okkur tekist að ganga sífellt lengra í nýtingu á rýminu í Hörpu. Það er kannski borið undir okkur hvort hægt sé að gera þetta eða hitt, og okkar viðbrögð eru að segja já, því viðhorfið hér er að ekkert sé okkur ofviða, of mikið eða of stórt, þó það þýði kannski að það kosti aðeins meira,“ segir Karítas Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri tónlistar- og ráðstefnusviðs Hörpu, sem játar að íslenska viðhorfið að redda hlutunum komi sér vel í þessu starfi.

„Þannig erum við alltaf að vaxa og dafna í því og það eru enn tækifæri til að bæta okkur. Að vera með flatt gólf eins og er í Silfurbergi og Norðurljósasalnum býður auðvitað upp á marga möguleika í uppsetningu. Til dæmis í staðsetningu á sviðinu, hvar sett eru upp tjöld, hvort salurinn sé á hlið eða hafður beint fram og svo framvegis. Nú þegar aukin reynsla er að koma á húsið hafa opnu rýmin verið að koma mun sterkar inn en áður, oft sem viðbót við salina sjálfa, og á kannski annan hátt en við gerðum okkur grein fyrir í upphafi.“

Karítas segir að þarna hjálpi til hve stór hluti starfsmanna Hörpu hafi starfað þar lengi og lært sífelt betur inn á hvað hægt er að gera, en til þess hafi oft þurft töluvert hugmyndaflug.

„Það þarf að geta teiknað upp Hörpu með alveg nýjum gleraugum. Opnu rýmin getum við núna nýtt sem fundarrými ein og sér, eða sem svona viðbótarfundarrými þegar um stærri ráðstefnur er að ræða. Einnig fyrir móttökur, veisluhöld og önnur mannamót, bæði sjálfstætt og sem hluti af öðru ráðstefnuhaldi,“ segir Karítas og nefnir dæmi um nýstárlega notkun rýmisins í Hörpu.

„Við höfum tekið Hörpu eins og hún lagði sig undir hátíðargalakvöldverð, sem við prófuðum í fyrsta skipti með 700 gesti árið 2016. Með svona marga gesti erum við ekki einungis að tala um Hörpuhorn, sem margir þekkja að hefur verið nýtt undir veislur og sjálfstæða tónleika. Heldur voru líka sett upp borð í Flóa, sem er opna rýmið á fyrstu hæðinni, alveg frá miðasölunni og að veitingastaðnum Smurstöðinni. Auk þess settum við upp upp borð fyrir framan Norðurljós og Silfurberg á annarri hæðinni sem og á Himnastiganum sem var nýttur með borðum alveg upp að barnum á fjórðu hæð.“

Enn fleiri tækifæri munu svo opnast í nýtingu hússins að mati Karítasar þegar Mariott lúxushótelið, sem og önnur uppbygging á hafnarsvæðinu, verður komið í notkun.  „Það eru nú þegar alþjóðleg samtök sem eru á biðlista með að komast með ráðstefnur sínar inn í Hörpu, en mörg þeirra hafa skilyrði fyrir að hafa ráðstefnuhótel í göngufæri.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fundir & ráðstefnur, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .