Fjárfestar tengdir bandaríska fasteignafélaginu Carpenter & Co. hafa tilkynnt borgaryfirvöldum að aðkoma þeirra að fjármögnun 17 milljarða króna lúxushótelsins við Hörpu sé í uppnámi vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael. Í frétt DV segir að fjárfestarnir hafi haft samband við skrifstofu borgarstjóra í síðustu viku til að lýsa óánægju sinni með viðskiptabannið.

Heildarfjárfesting fimm stjörnu hótelsins, sem verður rekið af alþjóðlegu hótelkeðjunni Marriott, er um 130 milljónir dala eða tæpir 17 milljarðar króna. Hótelið verður 250 herbergja og á að opna árið 2019. Arion banki kom að lánsfjármögnun verkefnisins og átti frumkvæði að því að kynna það fyrir Carpenter og Co. og íslenska fjárfestinum Eggerti Dagbjartssyni sem er minnihlutaeigandi í því.