Rekstur Hótel Íslands í Ármúla, sem og rekstur nýs hótels sem verið að byggja í Skipholti 1, hefur verið settur í söluferli. Stjórnarformaður hótelsins segir breytingar í ferðaþjónustunni þýða að brýnt sé að verða hluti af stærri heild.

Hótel Ísland er rekið af félaginu Heilsumiðstöðin 108 Reykjavík ehf.  sem er í eigu Evu Consortium ehf.  Eva, eins og fyrirtækið er jafnan kallað, er aftur í eigu Ásdísar Höllu Bragadóttur, Ástu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Evu, og Guðbjargar Matthíasdóttur útgerðarkonu og fjölskyldu hennar.

Verði hluti af stærri heild

Ásdís Halla, stjórnarformaður Evu, segir að í meginatriðum séu tvær ástæður fyrir því að verið sé að setja hótelið í söluferli. Annars vegar séu að verða breytingar innan ferðaþjónustunnar og hins vegar hafi starfsemi sjúkrahótelsins, sem frá upphafi hafi verið rekið í húsinu, farið minnkandi síðustu ár og sé nú að líða undir lok.

Ásdís Halla segir að þegar farið hafi verið af stað með verkefnið árið 2012 hafi viðskiptavinir Park Inn hótelsins, forvera Hótel Íslands, einna helst verið ferðamenn frá Mið-Evrópu sem bókað hafi gistingu í gegnum ferðaskrifstofur.

„Við höfum séð mjög hraða breytingu í þá átt að ferðamenn komi í auknum mæli á eigin vegum,“ segir hún. „Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir hótel að vera hluti af stærri heild með aðgang að öflugu sölu- og markaðskerfi. Við metum að það sé meiri styrkur fyrir þetta hótel að vera hluti af stærri einingu.“

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sér um söluferlið fyrir hönd Evu og segir Ásdís Halla það vera á fyrstu metrunum. Það eigi eftir að ráðast hvort Eva muni áfram koma nálægt rekstri hótelsins eða verða hluthafi í stærra félagi.

Aðkoma Evu að hótelrekstri í Ármúlanum hófst í upphafi árs 2012 þegar hluti húsnæðisins var nýttur undir sjúkrahótel á vegum Sinnum ehf., sem einnig er í eigu Evu og rekur ýmiskonar velferðar- og hjúkrunarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.  Í janúar 2014 tók Heilsumiðstöðin svo við hótelrekstrinum.

„Frá janúar 2014 höfum við verið að fikra okkur frá rekstri sjúkrahótels yfir í hótelrekstur í almennri ferðaþjónustu,“ segir Ásdís Halla. „Stór hluti tímabilsins fór í að breyta Broadway í heilsutengda þjónustu með spa og líkamsræktaraðstöðu en stærsti hluti rýmisins er undir starfsemi Klíníkurinnar, sem er að mestu í eigu lækna og hjúkrunarfræðinga sem þar starfa. Sú starfsemi hefur vaxið og dafnað og verður áfram innan veggja hótelsins í Ármúla.“

Jafnvægi að nást á hótelmarkaðnum

Stækkunarframkvæmdir eru framundan hjá Hótel Íslandi. Stefnt er að því að fjölga hótelbergjum úr 129 í 191 í Ármúla. Þá eru framkvæmdir hafnar við nýtt 78 herbergja hótel í Skipholti 1. Ásdís Halla segir að samanlagt verði herbergin því orðin 269 vorið 2020, sem markaðurinn líti vonandi á sem áhugaverða einingu á íslenska hótelmarkaðnum.

Hún segir að þó að hægt hafi á fjölgun ferðamanna hafi útleiga íbúða í gegnum Airbnb dregist saman. „Ég trúi því að það sé að myndast heilbrigðara jafnvægi á markaðnum og að til lengri og skemmri tíma séu mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir hún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .