Ein nótt á hóteli í Reykjavík kostaði að meðaltali tæpar 25 þúsund krónur í október en þá hafði verðið hækkað um fjórðung frá sama tíma í fyrra.

Hins vegar hafa verðskrár hótela í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Osló og Helsinki lækkað. Þetta kemur fram á vefsíðu Túrista .

Verðhækkun enn hærri í sænskum krónum

Ef verðhækkunin er talin í sænskum krónum sem hefur veikst á sama tíma og sú íslenska hefur styrkst, þá nemur verðhækkunin í Reykjavík 45%.

Ísland sé samt sem áður sífellt vinsælla meðal sænskra ferðamanna, en fyrstu níu mánuði ársins komu 25,2% fleiri þeirra hingað til lands heldur en á sama tíma árið á undan.

Ódýrari kostir fyrir Íslendinga

Fyrir Íslendinga er orðið ódýrara að bóka gistingar í hinum norrænu höfuðborgunum, eins og sjá má á töflu á Túrista .

Í íslenskum krónum talið hefur hótelverðið farið lækkandi fyrir íslenska gesti en sem fyrr er Helsinki hagstæðasti kosturinn, en verðið þar er þriðjungi lægra en hér á landi. Osló er jafnframt ódýrari en Stokkhólmur og Kaupmannahöfn.