Gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 304.000, sem er sami fjöldi og í nóvember í fyrra að því er Hagstofan greinir frá. Um 69% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 210.000, sem er 4% fækkun frá fyrra ári.

Nokkur fjölgun varð á gistinóttum frá nóvember fyrra árs á Norðurlandi, eða 15%, Suðurnesjum, þar sem hún var 12% og Suðurlandi, þar sem hún var 10%. Um 89% gistinátta voru skráðar á erlenda ferðamenn, en erlendum gistinóttum fækkaði um 1% frá nóvember í fyrra meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 7%.

Bretar gistu flestar nætur eða 86.500, síðan Bandaríkjamenn eða 74.900 og loks Þjóðverjar með 11.900, en gistinætur Íslendinga voru 33.800. Á tólf mánaða tímabili, frá desember 2016 til nóvember 2017, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.251.000 sem er 13% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Herbergjanýting í nóvember 2017 var 62,9%, sem er lækkun um 5,0 prósentustig frá nóvember 2016 þegar hún var 67,9%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,1% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 80,5%.