Fyrir utan höfuðstöðvar stéttarfélags Eflingar í Guðrúnartúni stendur fólksflutningabifreið Eflingar, sem búið er að merkja. Á annarri hlið bifreiðarinnar stendur „Hótelin eru í okkar höndum" og á hinni hliðinni eru sömu skilaboð á ensku „ The hotels are in our hands ".  Miðað við þetta er alveg ljóst að forsvarsmenn Eflingar telja afar líklegt að verkfallsaðgerðir verði samþykktar.

Atkvæðagreiðsla hjá félagsmönnum Eflingar, sem vinna við þrif á hótelum, veitinga- og gistihúsum, hefst í fyrramálið og lýkur klukkan tíu á fimmtudagskvöldið. Verði aðgerðirnar samþykktar munu þær hefjast föstudaginn 8. mars  og vara frá tíu að morgni til miðnættis þann dag.

Verði vinnustöðvunin samþykkt mun hún ná til allra hótela, veitinga- og gistihúsa á stórum hluta suðvesturhornsins. Nánar tiltekið þá mun hún ná til fyrirtækja í umdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu að Botnsá, Grímsness og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfus.

Eins og kunnugt er slitnaði upp úr kjaraviðræðum Eflingar, VR , Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins fimmtudaginn. Fundur deiluaðila í hjá ríkissáttasemjara hófst klukkan 14 og stóð í einungis í hálftíma. Um fimm mínútum eftir að fundi lauk sendi Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tölvupóst á félagsmenn stéttarfélagsins .