Hótelkeðjurnar Flugleiðahótel, Íslandshótel, Kea Hótel og Center Hotels veltu samanlagt 29 milljörðum króna í fyrra, sem er 10% aukning frá fyrra ári. Samanlagður hagnaður nam tæpum 1,5 milljörðum og dróst saman um 28%. Launakostnaður jókst um rúm 15% milli ára, en hlutfall hans af veltu jókst aðeins lítillega og var 42%. Hlutfall húsnæðiskostnaðar af veltu nam um 20%.

Séu keðjurnar skoðaðar hver fyrir sig kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Stóru keðjurnar tvær, Flugleiðahótel og Íslandshótel, sem hvor um sig veltu yfir 10 milljörðum, skila mun minni  hagnaði miðað við umfang en þær minni, og hann dregst verulega saman milli ára. Kea hótel og Center hotels skila hins vegar mun meiri hlutfallslegum hagnaði, hvort sem litið er á hlutfall veltu eða arðsemi eigin fjár. Hagnaður Kea dregst minna saman en þeirra stóru milli ára, og hagnaður Center tæplega sexfaldast.

Vörunotkun stóru keðjanna er mun hærra hlutfall veltu, sem hugsanlega skýrist af meiri áherslu á veitingasölu, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í sumar hefur tilhneiging ferðamanna til að gera vel við sig á veitingastöðum dregist verulega saman. Launakostnaður sem hlutfall veltu rennir enn frekari stoðum undir þá skýringu, en það hlutfall er mun hærra hjá stóru keðjunum tveimur; 45%, samanborið við 35% hjá minni keðjunum.

Tafla með hótelfrétt
Tafla með hótelfrétt

Íslandshótel það eina sem á húsnæðið
Þá vekur athygli að af keðjunum fjórum eru Íslandshótel eina félagið sem á að mestu leyti þær fasteignir sem starfsemin fer fram í. Heildareignir félagsins nema tæpum 38 milljörðum króna, en þar af er bókfært virði fasteigna og lóða 33 milljarðar.

Þetta skilar sér í umtalsvert lægri húsnæðiskostnaði en hann nam tæpum 1,3 milljörðum króna í fyrra, aðeins tæpum 12% af tekjum. Til samanburðar er sama hlutfall hjá hinum félögunum þremur að meðaltali 26%, og ekkert þeirra er undir 20%.

Þessu hagræði fylgir þó gríðarleg fjárbinding. Eigið fé Íslandshótela var rúmir 15 milljarðar í lok síðasta árs, en samanlagt eigið fé hinna þriggja keðjanna er aðeins 2,6 milljarðar. Arðsemi eigin fjár er þannig aðeins 2,7% hjá Íslandshótelum, á meðan hún er 15% hjá Flugleiðahótelum, 67% hjá Center, og rétt tæp 100% hjá Kea.

Jafnvægi að komast á
Samkvæmt úttekt greiningardeildar Arion banka hafa tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu svo til staðið í stað það sem af er ári, en framboð hótelherbergja aukist á sama tíma. Eftir mikinn uppgang og uppbyggingu síðustu ár er útlit fyrir að hótelbransinn sé loks að róast. Verð gistingar hefur tvöfaldast síðasta áratuginn og verðlag hótela og veitingastaða hérlendis er nú með því hæsta sem gerist í Evrópu. Þótt samanlagður hagnaður ofangreindra hótelkeðja hafi dregist saman milli ára skiluðu þær þó allar hagnaði, og fátt bendir til annars en að jafnvægi sé að komast á greinina, samhliða mun hægari fjölgun ferðamanna, sem þó fjölgar enn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .