Gengi bréfa í Tesla Motors rauk upp í dag, eftir tíst stofnandans sem gaf til kynna að ný vara væri á leiðinni. Nýja varan hefur nú verið gerð opinber og er um að ræða uppfærslu á Model S bifreið fyrirtækisins.

Elon Musk ætlar sér greinilega að ná betur til viðskiptavina með sportbíladellu, því nýja Model S bifreiðin verður útbúin 100 kilóvatta-klukkustunda batteríi.

Bílinn mun bera nafnið Model S P100D og kemst úr núll og upp í 100 á einungis 2,5 sekúndum. Bíllinn mun einnig drífa um 500 kílómetra á einni hleðslu.

Eigendur Model S P90D geta uppfært bílana sína gegn gjaldi. Þeir sem hafa nú þegar fengið bifreið geta borgað 20.000 dali á milli. Þeir sem eru að bíða eftir eintaki, geta greitt 10.000 dali á milli.