Stofnun sérstaks þróunarfélags um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur er í bígerð. Félagið mun nefnast Fluglestin-þróunarfélag ehf. Runólfur Ágústsson, hjá Ráðgjöf og verkefnastjórnun, hefur leitt verkefnið en að því  hafa komið fyrirtæki og sveitarfélög auk Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Hann segist vonast eftir því að snemma árs 2024 muni lestin fara í sína jómfrúarferð.

Heildarkostnaður verkefnisins er metinn á 730 milljónir evra eða um 102,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að eigið fé verði 20%  eða um 20,5 milljarðar en restin verði fjármögnuð með lánsfé.

„Verkefninu er skipt í þrennt," segir Runólfur. „Það er búið að vera á undirbúningsstigi í þrjú ár og nú er það að færast yfir á annað stig, sem felur í sér skipulagsþáttinn, mat á umhverfisáhrifum, hönnun og fjármögnun. Síðasti fasinn er framkvæmdin sjálf, sem tekur fimm ár.

Kostnaður við þennan annan fasa verkefnisins nemur 1,5 milljarði króna og við eigum nú í viðræðum við erlenda fjárfesta um fjármögnun á þessum hluta. Viðræðurnar eru langt komnar og væntanlega verður skrifað undir eftir um bil þrjár vikur. Þegar því er lokið verður búið að tryggja fjármagn út þetta ár. Það fé mun standa straum af rannsóknarkostnaði í sumar og haust."

Runólfur segir að á þeim stutta tíma sem liðin sé síðan hugmyndin hafi fyrst verið kynnt hafi forsendur verkefnisins breyst mikið.

„Við erum að uppfæra viðskiptaáætlunina sjálfa og sérstaklega allar tölur og forsendur um farþegaspár, sem hafa gjörbreyst frá því í fyrra," segir Runólfur. „Það er grundvallarmunur á fýsileika verkefnisins í dag eða fyrir þremur árum."

Runólfur segir að í dag sé reiknað með að verkefnið skili 15,1% innri vöxtum á eigið fé en ekki 9,9% eins og áður var talið. Hann segir að þessir nýju útreikningar miði við hóflega spá um fjölgun ferðamanna og að 40% þeirra muni nýti lestina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .