Vilhjálmur Árnason var kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2013. Meðal almennings er hans þekktasta þingmál líklega frumvarp um breytingar á fjórum lögum sem fjalla um sölu áfengis og tekjur ríkissjóðs. Frumvarpið myndi heimila smásölu áfengis í verslunum með ákveðnum skilyrðum. Það er umdeilt bæði innan þings og utan og hefur vakið talsverða umræðu í samfélaginu.

Vilhjálmur er fyrst spurður hvernig stemmingin sé á þingi þessa dagana. Hann segir stemminguna vera frekar rólega miðað við það hvernig hún hefur oft verið. „Það eru enn allir vinir og virð­ ast vera að bíða eftir að undirbúa sig fyrir komandi tíma,“ segir hann.

Tíma og fjármunum betur varið í annað

Hvert var tilefni þess að þú lagðir fram áfengisfrumvarpið?

„Ég bauð mig fram til setu á Alþingi með þau stefnumál að forgangsraða tíma og fjármunum hins opinbera í þágu grunnþjónustunnar og efla byggð um land allt. Þar sem það eru skiptar skoð­anir um málið á milli stjórnarflokkanna átti ég ekki von á því að þetta mál kæmi frá ríkisstjórninni. Ég ákvað því að setja málið fram þar sem það stuðlar að þeim markmiðum sem ég nefndi áðan og ekki skemmir fyrir að frumvarpið bíður upp á hugmyndafræðilega umræðu. Það er alveg augljóst að ríkið er að tapa fjármunum á að reka áfengisverslunina, en það er tóbakssalan sem skilar hagnaðinum hjá ÁTVR. Svo eru fimm milljarð­ ar bundnir í eigið fé meðal annars vegna áfengislagers. Þá fjármuni gætum við verið að nota í heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menntamál eða löggæslu, sem eru mín baráttumál á þinginu. Það kostar tvo milljarða að reka þetta batterí sem Vínbúðirnar eru á meðan verslun úti á landi, sem berst í bökkum, gæti verið að nýta þessar vörur til hagræðingar hjá sér. Það myndi skila neytandanum hagkvæmari þjónustu ásamt því að skila ríkinu auknum skatttekjum.

Það eru helstu ástæður þess að frumvarpið kemur fram. Að það væri hægt að nota tíma og fjármuni ríkisins í grunn­ þjónustu og mögulegt væri að nota löglega, ekki venjulega heldur löglega neysluvöru, í það að gera hina almennu verslun hagkvæmari úti um landið og styrkja grundvöll hennar íbúum til hagsbóta.“

Könnun sem birtist í upphafi vikunnar benti til þess að andstaða við sölu áfengis í matvöruverslunum hefði aukist. Vilhjálmur segir niðurstöðurnar sýna að þeim sem hafa talað gegn frumvarpinu hafi tekist að afvegaleiða umræðuna.

Þessi könnun og umræðan hefur aldrei fjallað um það sem frumvarpið snýst um. Þú sérð það að Fréttablaðið – sem ég hélt að vildi láta taka mark á sér – birtir könnun tveimur árum eftir að þetta frumvarp kom fyrst fram, ennþá á röngum forsendum. Frumvarpið leggur ekki skyldur á matvöruverslanir til að selja áfengi. Þær fá vissulega heimild til þess, en ætlunin með frumvarpinu var að gera það mögulegt að opna sérvöruverslanir, vefverslanir og auka þjónustuna í sælkeraverslunum, sem yrði helst á höfuðborgarsvæðinu. Þá var einnig horft til þess að efla kaupmanninn á horninu og almenna verslun á landsbyggðinni eins og ég kom að áðan. Þangað er verslunin að færast, á internetið, sælkeraverslanir og svo framvegis. Þeir spyrja líka bara um bjór og léttvín en frumvarpið er um allt.“

Hann segir frumvarpið vera sett upp eins og það er til að tryggja að verslun á landsbyggðinni styrkist og segist vera alveg sama þó að matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu væri bannað að selja áfengi innan um nauðsynjavöru. „Ég segi bara, að þessi hræðsluáróður hefur greinilega yfirstigið hina málefnalegu umræðu um frumvarpið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .