*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 11. nóvember 2017 14:56

„Hræðslubandalag“ sem snýst um völd

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, hugnast illa að Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn fari saman í ríkisstjórn.

Ritstjórn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Haraldur Guðjónsson

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, hugnast illa að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks gæti orðið að veruleika. Í Víglínunni í dag sagði hann þetta vera kerfisflokka sem vilja fyrst og fremst völd og ráðherrastóla. Ef slík ríkisstjórn yrði að veruleika yrðu hún „kyrrstöðustjórn“ eða „pásustjórn“ sem væri ófært um að finna milliveg og vinna að einstökum málefnum.

Málefnunum kastað fyrir róða

„Nú höfum við horft upp á það að hér hafa þrír flokkar – svona kerfisflokkar – farið mjög illa út úr kosningunum. Framsóknarflokkurinn með verstu niðurstöðu í sögu sinni í 101 ár. Sjálfstæðisflokkurinn næstverstu niðurstöðu í sinni sögu og Vinstri grænum tókst að tapa hátt í helmingi fylgisins á þriggja vikna kosningabaráttu miðað við kannanir. Hver eru þá viðbrögð þessara þriggja kerfisflokka? Þau eru þau að mynda einhvers konar hræðslubandalag,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Og um hvað á þetta bandalag að vera? Hinn hreinskilnasti af formönnunum líklega, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því í viðtali í gær, að þessi stjórnarmyndun á að snúast um það að „menn einbeiti sér að því að mynda sterka stjórn en geri einstök stefnumál flokkanna ekki að aðalatriði.“ Þetta er akkúrat vandi stjórnmálanna. Þarna er formaður Sjálfstæðisflokksins að lýsa því að það eigi að mynda ríkisstjórn ekki um málefnin, heldur um völdin – ríkisstjórn um það að skipta með sér ráðherrastólum og halda völdum þrátt fyrir að hafa tapað einmitt vegna þess að þessir flokkar hafa ekki verið að standa vörð um málefnin.

„Þannig að nú horfum við fram á ríkisstjórn þriggja flokka sem munu væntanlega eftirláta kerfinu að stjórna en vera í sínum ráðuneytum og sáttir í sínum stólum eins lengi og það endist.“

Framsókn verði uppfyllingarefni

Sigmundur Davíð telur allt tal um „breiða skírskotun“ vera til marks um þetta. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur til að mynda sagt að hann sé ekki spenntur fyrir mið-hægristjórn með Miðflokki, Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki og að næsta ríkisstjórn þurfi „breiða skírskotun“ til að hægt sé að ná pólitískum stöðugleika í landinu.

„Mér fannst svo undarlegur þessi frasi sem einhver fann upp á og hefur svo verið endurtekinn aftur og aftur að þessar stjórnarmyndunarviðræður nú snúist um að búa til stjórn með breiða skírskotun. Og hvað þýðir það þá? Af hálfu Framsóknarflokksins þýðir það þá væntanlega það að stefna Framsóknarflokksins sé of lík stefnu Miðflokksins og Flokks fólksins, svoleiðis að það sé ekki hægt að hafa þá með og að það þurfi einhverja aðra stefnu,“ sagði Sigmundur Davíð, sem telur Framsóknarflokkinn virðast ætla sætta sig við það að vera uppfyllingarefni í ríkisstjórn milli Sjálfsæðisflokksins og Vinstri grænna.

Þá telur Sigmundur Davíð að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar sé ekki til þess fallin að finna málamiðlanir til að vinna að mikilvægum málefnum, eins og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Ísland hafi einfaldlega ekki efni á kyrrstöðu í fjögur ár. „Við erum að róa yfir á og ef við hættum að róa þá bara förum við með ánni niður að flúðunum.“

Skilur ekkert í Bjarna Ben

Sigmundur Davíð segir að það hefði styrkt stöðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í stjórnarmyndunarviðræðunum ef hann hefði beðið eftir að fá stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands.

„Ég skildi nú ekkert í Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að ef hann ætlaði að fara í þessar viðræður, að bíða þá ekki eftir því að fá formlegt stjórnarmyndunarumboð frá forsetanum, sem hann hefði fengið. Með því hefðu hann verið að styrkja stöðu sína, inn í þessar viðræður líka, jafnvel þó að hann hefði getað hugsað sér að gefa forsætisráðuneytið eftir, ef það er krafa einhverra þingmanna flokksins sem langar að verða ráðherra. En jæja, núna er hann kominn í þetta án þess að vera kominn með umboðið. Og þá segir varaformaður Vinstri grænna að það sé nú ekkert víst að það sé hægt að leyfa Bjarna Benediktssyni að vera ráðherra í ríkisstjórn!“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim