Hagkerfi Bretlands óx hraðar en væntingar hagfræðinga og annarra sem spáðu að útganga landsins úr Evrópusambandinu myndi skaða hagkerfi landsins.

Hagkerfið óx í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu

Á ársfjórðungnum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um málið þann 23. júní síðastliðinn óx hagkerfið um 0,5%, sem er betra en væntur meðalhagvöxtur sem spáð var að yrði 0,3%.

Vöxtur í þjónustu mældist 0,8% sem vóg á móti samdrætti í framleiðslu og framkvæmdum.

Hrakspámenn ættu að sýna auðmýkt

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar spáðu stofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Englandsbanki og breska fjármálaráðuneytið fyrir um samdrátt í kjölfar þess að útganga yrði samþykkt.

Ryan Bourne, einn þeirra sem tóku þátt í baráttu hópsins „Economists for Brexit“ sagði að þeir sem héldu úti hrakspám ættu að sýna auðmýkt enda hafi spár þeirra verið „mjög óraunhæfar skammtímaspár byggðar á takmörkuðum sönnunum um áhrif af skammtímaóvissu og væntingum um lægri hagvaxtarmöguleika utan ESB.“

Umrót í landinu í kjölfar niðurstaðna

Hagvaxtarútreikningarnir ná yfir tímabilið frá þjóðaratkvæðagreiðslunni en síðan þá hefur landið skipt um forsætisráðherra, pundið veikst umtalsvert og Englandsbanki lækkað stýrivexti í fyrsta sinn í sjö ár.

„Það eru fá merki um viðvarandi áhrif í beinu framhaldi af atkvæðagreiðslunni,“ segir Joe Grice, aðalhagfræðingur hagstofu Bretlands.

Þrír af fimmtíu spáðu rétt

Þetta er fimmtándi ársfjórðungurinn í röð þar sem er hagvöxtur, þó hann sé minni en 0,7% hagvöxtur ársfjórðunginn á undan.

Einungis þrír af fimmtíu hagfræðingum sem Bloomberg fréttastofan spurði hitti á rétta tölu, allir aðrir bjuggust við minni hagvexti. Þessi hagvöxtur dregur úr líkum á frekari stýrivaxtalækkun í bráð.