Undanfarin ár hefur verð hrávara á heimsmarkaði lækkað umtalsvert og hefur það haft veruleg áhrif á íslenska þjóðarbúið. Seðlabankinn hefur metið það sem svo að verðbólga hefði verið um einu og hálfu prósentustigi meiri í upphafi þessa árs ef ekki hefði verið fyrir alþjóðlega verðhjöðnun. Það má fyrst og fremst rekja til mikillar verðlækkunar olíu og annarrar hrávöru.

Hagvöxtur hefur verið kröftugur undanfarið, en í Peningamálum sínum í ágúst benti Seðlabankinn á að vegna þess hvernig alþjóðlegt verðlag hefur þróast hefur efnahagsbatinn í raun verið enn meiri en hagvöxturinn gefur til kynna. Í fyrra mældist 4% hagvöxtur á Íslandi, en sé tekið tillit til þess að þær vörur sem við kaupum frá útlöndum voru mun ódýrari en árið á undan má segja að efnahagsbatinn hafi í raun verið 7,9%, að því er fram kom í Peningamálum.

En hvað er framundan? Má búast við að Íslendingar haldi áfram að njóta góðs af lækkun hrávöruverðs, eða mega landsmenn vænta þess að alþjóðleg verðþróun fari að kynda undir verðbólgu hér á landi í stað þess að draga úr henni?

Olía hækki um 28%

Olía er sú hrávara sem hefur haft langmest áhrif til lækkunar verðbólgu á Íslandi undanfarin misseri. Ef marka má nýja spá Alþjóðabankans er langt í að olíuverð nái aftur upp í þær hæðir sem það var í fyrir verðhrunið árin 2014 og 2015. Bankinn spáir því að árið 2025 muni olía kosta um 83 dollara á tunnuna, en árið 2013 kostaði tunnan 104,1 dollara að meðaltali.

Bankinn spáir því þó að olíuverð muni vera um 28% hærra á næsta ári en í ár. Því er spáð að eftirspurn eftir olíu muni aukast um 1,3% á næsta ári og um annað eins á því næsta, og mun það styðja við verðið. Mestu munar þó um samkomulag OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, um takmarkanir á olíuframleiðslu.

Þann 28. september samþykktu aðildarríki OPEC, sem standa að baki um 40% heimsframleiðslunnar á olíu, að minnka framleiðslu sína á hráolíu niður í um 33 milljónir tunna á dag. Til samanburðar var olíuframleiðsla þessara ríkja 38 milljónir tunna á dag árið 2015. Nákvæmari útfærsla samkomulags OPEC-ríkjanna verður rædd á fundi þeirra þann 30. nóvember.

Jafnframt lýstu ríkin sig reiðubúin til viðræðna um framleiðslutakmarkanir við ríki utan OPEC. Þar munar mestu um Rússland, sem lýsti yfir áhuga á slíkum viðræðum í síðasta mánuði. Enn er óljóst hvort viðræður af þessu tagi munu hefjast. Raunar lækkaði olíuverð í upphafi vikunnar eftir að fundi ríkja OPEC og annarra olíuframleiðsluríkja lauk án nokkurrar niðurstöðu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .