Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hafa farið fram á að Al Thani-málið svonefnda verði endurupptekið og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju. Hreiðar var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í málinu en Sigurður hlaut fjögurra ára fangelsisdóm. Ólafur Ólafsson fór áður fram á endurupptöku málsins, eins og greint hefur verið frá .

Forsendur endurupptökubeiðni Hreiðars og Sigurðar eru annars vegar að Árni Kolbeinsson, einn dómenda í Hæstarétti, hafi verið vanhæfur til að dæma í málinu og hins vegar að sönnunargögn hafi verið rangt metin.

Sonur Árna í slitastjórn Kaupþings

Í endurupptökubeiðninni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram að Árni Kolbeinsson hafi verið skipaður varadómari í málinu og með tölvupósti þann 19. desember 2014 hafi málflytjendum verið tilkynnt að eiginkona hans, Sigríður Thorlacius, hefði setið í stjórn Fjármálaeftirlitsins fram í janúar 2009 en stofnunin var með málið til rannsóknar á þeim tíma. Af því tilefni var þess óskað að verjendur eða ákæruvald upplýstu um hvort gerð væri athugasemd við setu dómarans í málinu, en svo var ekki og tók dómarinn því sæti.

Hins vegar segir að eftir að dómur í málinu gekk hafi komið fram upplýsingar í fjölmiðlum um tengsl sonar dómarans við slitastjórn Kaupþings, en sá starfaði sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnarinnar á árunum 2008 til 2013. Þessar upplýsingar hafi verið nýjar fyrir Hreiðar og Sigurð og ekki hafi verið upplýst um þessi tengsl í samskiptum Hæstaréttar og málflytjenda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .