Í árslok 2015 voru hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja jákvæðar um 665,9 milljarða króna samkvæmt nýuppfærðum tölum Hagstofu Íslands .

Hafa áhrif uppgjör slitabúa föllnu fjármálafyrirtækjanna, eða gömlu bankanna, greinilega verið mikil því hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 2.947 milljarða í árslok 2014.

Önnur fyrirtæki skulda meira en eiga

Fjáreignir annarra fyrirtækja en fjármálafyrirtækja minnkuðu um 1,3% að nafnvirði á milli áranna 2014 og 2015 og stóðu þær í 4.869 milljörðum króna í árslok 2015. Á sama tíma námu fjárskuldbindingar 8.584 milljörðum króna sem er minnkun um 3,89% á milli ára.

Voru því hreinar fjáreignir annarra fyrirtækja en fjármálafyrirtækja neikvæðar um 3.715 milljarða króna, eða sem nemur 168% af vergri landsframleiðslu í árslok 2015.

Fimmtungsminnkun fjáreigna ríkisins

Hreinar fjáreignir hins opinbera og undirgeira þess voru svo neikvæðar um 1.158 milljarða króna og höfðu skuldir umfram eignir aukist um 19,7% frá fyrra ári.

Á milli áranna jukust hins vegar hreinar fjáreignir heimila í landinu um 20,8% og námu þær 3.249 milljörðum króna í árslok 2015, sem jafngildir 146,7% af vergri landsframleiðslu.

Stærstur hluti þeirra 5.137 milljarða króna sem telst til fjáreigna heimilanna, eða 75,3%, eru lífeyrisréttindi. Fjárskuldbindingar heimilanna höfðu svo minnkað um 1,9% frá árinu áður og námu þær 1.889 milljörðum króna í árslok 2015.

Mikil rýrnun fjáreigna erlendra aðila

Á sama tíma og heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira námu 28.234 milljörðum króna í árslok 2015 námu fjárskuldbindingar þeirra 29.115 milljörðum króna. Því eru heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira neikvæðar sem nemur 881 milljarði króna.

Á árinu 2015 minnkuðu svo fjáreignir erlendra aðila á Íslandi um 38,1% og námu þær 5.835 milljörðum króna í árslok 2015. Hreinar fjáreignir erlendra aðila rýrnuðu um 82,3% á árinu 2015 og stóðu þær í 919 milljörðum króna í lok ársins. Fjárskuldbindingar við innlenda aðila námu hins vegar 4.916 milljörðum króna.