Hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna versnaði verulega milli ára og var 0 prósent, engin, í fyrra samanborið við átta prósent árið 2015 að því er kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins um stöðu íslensku lífeyrissjóðanna . Eins og áður hefur verið greint frá námu eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2016 um 3.726 milljarðar króna, eða 154% af vergri landsframleiðslu (VLF). Til samanburðar voru efnahagsreikningar þriggja stærstu viðskiptabankanna um 3.200 milljarðar króna og lánamarkaðarins í heild um 4.250 milljarðar króna.

Eignir lífeyriskerfisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkuðu um þrjú prósentustig frá fyrra ári vegna lægri ávöxtunar sjóðanna og aukinnar landsframleiðslu. Ávöxtunin var með því lægsta sem gerðist innan OECD landa á liðnu ári. Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða síðastliðin 25 ár er hins vegar 4,3% sem er vel yfir langtímaviðmiði þeirra um 3,5% árlega ávöxtun. Hrein raunávöxtun séreignasparnaðar lífeyrissjóða annarsvegar og annarra vörsluaðila hins vegar var neikvæð um 0,7% og 2,0% á liðnu ári.