Fjármálaeftirlitið hefur ráðið Finn Sveinbjörnsson, fyrrverandi bankastjóra Arion banka og Sparisjóðabanka Íslands, sem framkvæmdastjóra bankasviðs. „Ég er sextugur á þessu ári, hvorki meira né minna, og þegar ég sá þetta starf auglýst hugsaði ég mér að þetta væri kjörið tækifæri til að bjóða fram krafta mína og reynslu af fjármálamarkaði,“ segir Finnur en hann segir að með þessu megi segja að hann sé að loka hringnum.

„Ég byrjaði hjá fjármálaráðuneytinu og svo hef ég líka starfað í Seðlabankanum og í viðskiptaráðuneytinu. Síðan var ég hjá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, sem núna eru Samtök fjármálafyrirtækja, síðan Kauphöllinni, Sparisjóðabankanum og eftir hrunið var ég svo fenginn til að stýra Arion banka. Eftir það hef ég mestmegnis verið sjálfstætt starfandi við ýmiss konar ráðgjöf, auk þess að vera um nokkurra mánaða skeið hjá Borgun í fyrra.“

Finnur segist hafa fylgst með Fjármálaeftirlitinu í áranna rás. „Mér fannst tilvalið að kynnast því núna sjálfur hinum megin frá,“ segir Finnur um nýja starfið. „Í orðanna hljóðan felst í því að vera framkvæmdastjóri yfir því að móta verkefni og forgangsraða, leiðbeina og sjá til þess að verkefnin séu unnin í samræmi við áherslur stofnunarinnar og lögskipað hlutverk.“

Finnur segir að fjármálamarkaðurinn hér á landi hafi þroskast mjög mikið á þessum árum þótt þróunin hafi ekki alltaf verið í eina áttina. „Ég tók þátt í því á sínum tíma að afnema gjaldeyrishöftin svo það var ákveðið sjokk að upplifa það eftir allan þennan tíma að þessi stífu gjaldeyrishöft væru endurvakin og íslenskur fjármálamarkaður einangraður á ný,“ segir Finnur.

„En fjármálamarkaðurinn, og þjóðfélagið allt í dag, er miklu opnara og frjálslegra en þegar ég kom heim úr námi 1984. Sem dæmi þá var afgreiðslutími verslana á þessum árum mjög afmarkaður en maður vandist því úti, sérstaklega í Bandaríkjunum, að verslanir voru nánast alltaf opnar. Það kom stundum fyrir þegar við vorum nýflutt heim að maður hreinlega gleymdi því að að það yrði lokað um helgina og maður gæti ekki farið í búð hvenær sem var.“

Finnur er giftur Dagnýju Halldórsdóttur verkfræðingi og saman eiga þau tvö uppkomin börn og tvö barnabörn sem eru 6 mánaða og 4 ára.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .