Hrönn Óskarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Árnasynir. Hrönn er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og diplóma í markaðssamskiptum frá Endurmenntun Háskóla Íslands, ásamt því að hafa stundað nám í markaðshagfræði við Aarhus Köbmandsskolen í Danmörku. Hrönn leggur nú einnig stund á meistaranám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands með vinnu.

Hrönn vann áður hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton þar sem hún sá um daglegan rekstur auk ráðgjafastarfa á sviði almannatengsla og stjórnunar. Hrönn hefur einnig unnið sjálfstætt sem ráðgjafi. Hrönn er gift Júlíusi Hafstein viðskiptastjóra og eiga þau þrjú börn.

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Hrönn til okkar, hún kemur með mikilvæga reynslu og faglega þekkingu inn á stofuna sem gefur okkur aukið tækifæri til að vaxa og veita viðskiptavinum betri og meiri þjónustu í þessum bransa sem er að þróast mjög hratt“ segir Árni Árnason eigandi stofunnar.

Hrönn er ein örfárra kvenna til að gegna stöðu framkvæmdastjóra auglýsingastofu hér á landi en hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum hjá stærstu fyrirtækjum landsins var aðeins níu prósent í fyrra.

„Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fá öfluga konu í brúna, og auglýsingabransanum veitir ekki af því. Við teljum að það bæti árangur viðskiptavinanna ef teymið okkar hefur jafnari kynjahlutföll, m.a. með því að endurspegla betur markhópinn, með frjórri hugmyndavinnu og fjölbreyttari sjónarmiðum.“

Með ráðningu framkvæmdastjóra mun Árni færa sig alfarið yfir í hugmyndavinnu og ráðgjöf við viðskiptavini stofunnar sem hefur stækkað ört undanfarin ár.