Fjórar sprengjur sprungu í sumardvalabænum Hua Hin í Taílandi á einum sólarhring, og létust þar tveir. Einnig voru sprengingar á eyjunni Phuket en þar sprungu tvær sprengjur í ferðamannabænum Patong.

Einnig voru sprengingar í Surat Thani þar sem einn lést, auk sprengingar í Trang þar sem ein manneskja lést auk sprenginga í strandhéraðinu Phang Nga.

Staðir þekktir fyrir fallegar strendur

Hua Hin er um 200 km suður af höfuðborginni Bangkok, meðan héraðið Phuket er syðst í landinu. Auk Phang Nga eru staðirnir þekktir fyrir gríðarlega fallegar strendur.

Sprengingarnar tværi í Surat Thani urðu fyrir framan lögreglustöðvar á innan við hálftíma hvor frá annarri.

Átök við múslímska aðskilnaðarsinna í nágrannahéröðum við Malasíu

Lögreglan hefur handtekið nokkra sakborninga, en þeir hafa hafnað að um sé að ræða alþjóðlega hryðjuverkaöfl, en tengsl sprenginganna við aðskilnaðarhreyfingu múslímskra íbúa í suðurhluta landsins við landamærin að Malasíu eru óskýr.

Þau átök hafa staðið yfir í 12 ár, og valdið dauða 6.000 manns, en þau hafa aldrei áður beinst gegn ferðamönnum. Koma árásirnar þegar afmæli drottningarinnar er fagnað með almennum frídegi í landinu.

Ný stjórnarskrá tryggir áframhaldandi ítök hersins

Í síðustu viku kusu Taílendingar um nýja stjórnarskrá sem á að vera grundvöllur fyrir að lýðræði verði endurreist í landinu eftir valdatöku hersins í maí árið 2014 í kjölfar pólitísks óstöðugleika í landinu.

Stjórnarskráin festir þó í sessi og eykur ítök hersins á stjórnkerfi landsins til frambúðar.