HS Orku hf. hefur borist jákvæð niðurstaða í gerðardómsmálinu sem varðaði gildi orkusölusamnings milli HS Orku hf. og Norðuráls Helguvíkur ehf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þessi „umdeildi samningur“ sé því ekki lengur í gildi. „Þá getum við selt þá orku á markaði í stað þess að vera bundnir af þessum óhagstæða samningi,“ segir Ásgeir.

„Þetta er mjög jákvætt fyrir okkur. Við hófum þetta mál sumarið 2014. Við héldum að samningurinn væri fallinn og nú er búið að úrskurða að svo er. Þetta léttir af okkur ýmsum byrðum um að þurfa hugsanlega að reisa virkjanir og að selja samkvæmt óhagstæðum samningi,“ bætir Ásgeir við.

Ásgeir segir niðurstöðuna geri HS Orku kleift að leita nýrra samningstækifæra á Íslandi án takmarkana eftir því sem ný orka verður til reiðu. „Það er alltaf einhverjum sem vantar orku. Staðan er á markaðnum er þannig að það er vöntun á orku fyrir ný verkefni á Íslandi.“ Ásgeir bætir því við að vegna uppgangs í þjóðfélaginu hefur almenni markaðurinn vaxið mjög mikið.