Zhang Weidong er sendiherra Kína á Íslandi. Hann segir ástæðulaust að tortryggja Kínverja sem vilja fjárfesta á Íslandi. Þeir vilji einfaldlega ávaxta fé eins og fjárfestar annarra landa.

Spurður hvað honum þyki um ákvörðun íslenskra stjórnvalda að synja Huang Nubo um leyfi til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum segist Zhang hafa fylgst með fréttum af málinu.

„Herra Huang er vel þekktur athafnamaður í Kína og á Zhongkun fjárfestingarfélagið, sem er líka vel þekkt. Málið átti sér stað fyrir nokkrum árum og á þeim tíma þekkti herra Huang sennilega ekki hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á Íslandi. Hann var að leita að stað til að fjárfesta, og það er það sem athafnamenn gera, þeir fara með fé þar sem það ávaxtast vel eða þar sem eru tækifæri til uppbyggingar. Hann átti að mér skilst íslenskan vin frá því að hann var í námi í Peking. Af þessum ástæðum kom hann til Íslands en hann þekkti sennilega ekki hvernig lagaumgjörðin var. Síðan er herra Huang ljóðskáld, en þau eru yfirleitt frekar rómantísk. Hann hugsaði þetta sennilega líka á rómantískan hátt,“ segir Zhang og brosir.

„Ég veit ekki hvar málið er statt núna, en ég virði ákvörðun íslenskra stjórnvalda í því. Það er stefna kínverskra stjórnvalda að skipta sér ekki af innanríkismálum annarra ríkja. Það er því undir ykkur að ákveða þetta eftir ykkar lögum og ég virði það sem sendiherra. Fjárfestar verða líka að gera það, en þeir vilja vissulega ávaxta sitt fé og nýta þau tækifæri sem eru til staðar út um allan heim. Ef tíminn er ekki réttur til að fjárfesta hér, þá er ekki annað í stöðunni en að bíða þar til betra tækifæri gefst.“

Zhang Weidong er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .