Kínverski tæknirisinn Huawei stendur nú frammi fyrir því að missa aðgang að vinsælasta snjallsímastýrikerfi heimsins, Android, eftir að bandarísk yfirvöld settu félagið á svartan lista.

Símaframleiðandinn – sem seldi yfir 200 milljón snjallsíma í fyrra og rauk fram úr sölutölum Apple og tryggði sér þannig annað sætið á eftir Samsung – er í frétt Financial Times um málið sagður munu missa um helming þeirrar sölu fari svo að símar hans neyðist til að nota annað stýrikerfi.

Fyrirtækið hefur þó enn aðgang að grunnútgáfu Android, sem er svokallaður opinn hugbúnaður (e. open source), og Google, útgefandi Android, hefur gefið út að þeir símar sem þegar notast við stýrikerfið muni njóta áframhaldandi stuðnings.

Ef fram fer sem horfir munu nýir Huawei símar hinsvegar ekki hafa aðgang að smáforrita-sölutorgi Google, Play Store, né þjónustu á borð við YouTube og Google Maps, né njóta þess víðtæka stuðnings sem aðrir Android-símaframleiðendur njóta.

Bannið talið tengjast tollatríði Trump
Ríkisstjórn Donalds Trump setti fyrirtækið á bannlistann – sem þýðir að bandarísk fyrirtæki sem vilja stunda við það viðskipti þurfa að fá sérstakt leyfi frá yfirvöldum – í kjölfar þess að upp úr tollaviðræðum Bandaríkjanna og Kína slitnaði í þarsíðustu viku, og tollahækkanir gengu á báða bóga.

Auk Google mun Huawei missa aðgang að allskonar snjallsímaíhlutum sem bandarísk fyrirtæki hafa hingað til selt þeim, svo sem loftnetum og örgjörvum, en fyrirtækið hefur að sögn verið að undirbúa sig fyrir það, og safnað töluverðum birgðum slíkra íhluta, auk þess að þróa sína eigin.

Að sama skapi segjast forsvarsmenn félagsins geta kynnt til leiks eigin stýrikerfi „mjög fljótlega“ til að taka við keflinu af Android. Það er þó ekki talið líklegt til að duga til að halda í viðskiptavini félagsins utan heimalandsins.