Tristan Elizabeth Gribbin á og rekur ásamt Þóru Björk Elvarsdóttur, Stefáni Árna Þorgeirssyni og Sigurði Kjartanssyni, nýsköpunarfyrirtækið FlowVR. Fyrirtækið var stofnað í kringum þá hugmynd að hanna sýndarveruleikasnjallforrit fyrir sýndarveruleikagleraugu. „Hugmyndin er að fólk geti, með hjálp snjallforritsins, hugleitt hvar sem er og hvenær sem er. Það getur verið á skrifstofu, á flugvelli, á spítala, hvar sem er. Þetta er svona alltumlykjandi upplifun," segir Tristan.

Fyrirtækið fór í gegnum nýsköpunarhraðalinn Startup Reykjavík strax sumarið 2016 og Stökkpallinn hjá Vodafone og fékk í kjölfarið vaxtarstyrk frá Tækniþróunarsjóði. Í dag er fyrirtækið með aðstöðu í Sjávarklasanum og vann nú í byrjun nóvember Gulleggið, frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups, og hlaut fyrir það milljón krónur í verðlaunafé.

Þótt forritið sé hugsað fyrir alla, hefur fyrirtækið lagt sérstaka áherslu á að markaðssetja til annarra fyrirtækja. „Við höfum verið að einbeita okkur að því að selja frekar fyrirtækjum fyrst um sinn, en munum síðar einnig leggja áherslu á að ná beint til einstaklinga. Við höfum haldið námskeið fyrir fjölmörg fyrirtæki á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð. Meðal annars höfum við verið með ýmis hugleiðslunámskeið fyrir fyrirtæki eins og Kolibri, CCP Games, Vodafone og fleiri," segir Tristan.

„Eins og að vera kominn út í náttúruna"

Tristan segir mikil tækifæri fólgin í þeirri öru þróun sem sýndarveruleikatækni er að ganga í gegnum um þessar mundir. „Sýndarveruleiki er vaxandi markaður, sem er frekar nýr. Það eru bara 1.000 forrit í Oculus snjallforritaversluninni. Við vildum búa til áhrifamikla og kraftmikla upplifun með hugleiðslu. Þau snjallforrit sem eru til núna eru svona í einfaldara lagi. Það eru svo miklu meiri möguleikar með sýndarveruleika, hann býður upp á að upplifa stórkostleg augnablik í náttúrunni, með hjálp 360 gráðu lifandi myndefnis. Þetta er eins og að vera kominn út í náttúruna. Þú ert bara á Snæfellsnesi, Þórsmörk eða á Þingvöllum, eða með stórkostlegt útsýni yfir Borgarfjörðinn. Þú getur farið hvert sem er og verið þar, í hreinni, tærri, ótrúlega fallegri íslenskri náttúru."

Hið sjónræna er þó ekki nóg til að fullkomna upplifunina. „Við hina myndrænu upplifun bætist svo hljóð, en við erum með tónlist frá Sigur Rós, Jónsa & Alex, Pétri Jónssyni og GusGus, svo eitthvað sé nefnt. Samspil myndog hljóðrænnar upplifunar veitir samstundis hugarró. Forritið gerir fólki þannig kleift að komast í hugleiðsluástand á örskotsstundu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .