Hugmyndahús háskólanna, sem er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, var opnað formlega í dag. Það voru þau Svafa Grönfeldt rektor HR og Hjálmar Ragnarsson rektor LHÍ sem opnuðu húsið. Yfir 40 manns hafa þar fast aðsetur og hér til hliðar má sjá fjölda mynda af starfseminni í húsinu.

Hugmyndaráðuneytið í Hugmyndahúsinu

Að sögn Gunnars Karls Níelssonar, sem starfar að Hugmyndahúsinu, fór í dag fram kynning á fyrirtækjum og félagasamtökum í húsinu. Hann nefndi í því sambandi fyrirtækin Medizza, Clara, Rafskinnu og Mindgames og félagsskapinn Hugmyndaráðuneytið, þar sem Guðjón Már Guðjónsson stofnandi Oz er einn af helstu forsvarsmönnum.

Í Hugmyndahúsinu er rekið óhefðbundið kaffihús sem er opið alla virka daga frá kl. 8-18. Í húsinu er einnig fjöldi listviðburða og þar stendur nú yfir sýning á leirlistamunum.

Ókeypis jafningjafræðslunámskeið

Í Hugmyndahúsinu er aðstaða til að taka á móti þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í rekstri fyrirtækja og boðið verður upp á ókeypis jafningjafræðslunámskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja. Nemendur við HR sjá um námskeiðið í sjálfboðavinnu.

Í kynningu á Hugmyndahúsi háskólanna segir að það sé umgjörð til sköpunar og nýsköpunarstaður grasrótarinnar þar sem hugmyndir og fólk, kryddað með þekkingu og sköpun, sem séu aðalsmerki HR og LHÍ, njóti sín. Háskólarnir tveir vilji leggja sitt af mörkum til að byggja upp fólk sem byggi þetta land og skapa því sem víðtækust tækifæri, t.d. í formi atvinnu. Skólarnir tveir leggi til námskeið, skipulag, aðgang að þekkingu og ráðgjöf. Þá segir að Hugmyndahús háskólannna sé fyrir alla sem vilji leggja sitt af mörkum og skapa sér ný tækifæri. Markmiðið sé að leiða saman ólíka einstaklinga úr öllum atvinnugreinum.