Guðrún Johnsen, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar „Bringing down the banking system – Lessons from Iceland“, segir að 100 prósent bindiskylda á viðskiptabanka sé ekki rétta lausnin til að tryggja stöðugleika þeirra. Þetta kemur fram í grein hennar í Hjálmum, tímariti hagfræðinema sem fylgdi Viðskiptablaðinu í gær.

Hugmyndin um „betra peningakerfi“ hefur fengið umtalsverðan hljómgrunn á Íslandi og hefur Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, meðal annars talað fyrir aðskilnaði peningaprentunar og útlánastarfsemi til að draga úr líkunum og minnka skaðsemi annars bankahruns.

Guðrún viðurkennir að margt hefði mátt betur fara í starfsemi fjármálastofnana í aðdraganda hrunsins en bendir þó á ákveðna galla við stefnur á borð við „the Chicago Plan“ og „Positive Money“, sem miða að því að draga úr valdi banka til peningaprentunar.

„Róttækustu umbótasinnarnir telja að rótina sé að finna í útþenslu peningamagnsins sjálfs og þá sérstaklega getu bankanna til að búa til peninga í gegnum víxlverkun innlána og útlána bankanna (e. deposit money multiplier) umfram það sem seðlabankinn býr til með peningaprentun. Í þeirra huga kallar það á að afnema bankakerfin alveg í þeirri mynd sem þau eru nú og gera ráð fyrir því að endurskipuleggja kerfið í grundvallaratriðum,“ skrifar Guðrún í Hjálma.

„Það er vissulega ólík sýn sem allir þessir aðilar hafa á hvernig bankakerfið á að virka og hlutverk banka, í þeirra huga, er ólíkt – en allir eiga þeir það sameiginlegt að vilja koma í veg fyrir það að bankar geti búið til peninga (úr engu) og forðast þannig þá áhættu sem af því stafar. Til að ná þessu fram beina þeir allir sjónum sínum að peningamagni í umferð og vonast til að hægt verði að skilja að peningamyndun og útlánastarfsemi með því að leggja 100% bindiskyldu á innistæður. Með þessu sé hægt að forða almenningi frá óskynsömum bankamönnum og sérstaklega forða ríkisfjármálunum frá því að verja fjármunum í að bjarga þeim frá eigin óförum og útlánatöpum.“

Hún segir að þrátt fyrir fögur fyrirheit og velvilja þessara hugsuða verði ekki framhjá því litið að hugmyndir þeirra um eðli peninga samræmist ekki raunveruleikanum.

.„Jafnvel þó þetta væri hægt, og þar með flækja enn frekar flókið fjármálakerfið, er seðlabankinn ekki þess umkominn að geta ákveðið rétt peningamagn í umferð. Þótt vitrustu og velviljuðustu einstaklingar landsins yrðu settir í peningamagnsnefndina, munu þeir eiga í erfiðleikum með að sjá fyrir hvaða atvinnugeirar það eru sem rétt er að auka peningamagn til (með lánum), sem munu sannarlega geta greitt lánin til baka með vöxtum.“