Lagning sæstrengs sem flytur raforku á milli Íslands og Bretlands hefur verið til skoðunar hjá stjórnvöldum undanfarin ár. Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa telur ósennilegt að af lagningu hans verði.

„Í umræðunni um sæstreng er aldrei rætt um það sem þarf til. Hversu margar virkjanir þurfi til. Það þyrfti að byggja háspennustrengi um landið þvert og endilangt til að smala henni saman. Ég held að raskið sem því fylgir að smala saman orku úr hverjum einasta bæjarlæk til þess að flytja þúsund megavött til Evrópu sé meira en Íslendingar séu til í að fallast á. Það myndi gjörbreyta landinu og ímyndinni miklu meira en við höfum smekk fyrir. Persónulega held ég að orkan sé best nýtt hérna heima. Verðið sem við Íslendingar borgum fyrir orkuna ætti að vera lægra en við borgum í nágrannalöndunum. Í því felst ákveðið samkeppnisforskot sem við þurfum svo sannarlega á að halda því að við erum langt frá öllu og því aðföng dýr. Svo er þessi strengur alveg svakalega langur. Svona langur strengur hefur aldrei verið byggður. Það er tæknileg áhætta fólgin í því sem ég veit ekki hver á að taka og endar sjálfsagt á að viðskiptavinirnir, sem eru ég og þú, borga rafmagnsreikninginn,“ segir Tómas Már.

Þá fari kostnaður við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á borð við sólarsellur og vindmyllur hratt lækkandi. „Það eru miklar fjárfestingar sem standa yfir á þessu sviði og tengingarnar innan Evrópu eru alltaf að batna.“

Nánar er rætt við Tómas Má í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .