Erfitt er að meta hvaða tíu skip það voru sem sáust á gervitunglamyndum suðaustur af landinu í lok október, en frá því er sagt í skýrslu sem Landhelgisgæslan lagði fram í þjóðaröryggisráði Íslands að tíu óþekkt endurvörp hafi þá sést.

Fréttablaðið fjallaði fyrst fréttamiðla um málið í síðustu viku. Er vitnað til skýrslunnar þar sem segir að „Landhelgisgæslan hefur undanfarið fundið fyrir takmarkaðri eftirlitsgetu á íslenskum hafsvæðum.“

Í skriflegu svari frá Landhelgisgæslunni til Fiskifrétta, þar sem spurt er hvort Gæslan hafi kenningu um hvaða skip voru þarna á ferðinni, segir að erfitt sé að meta það með fullri vissu. Hins vegar sé horft til þess að á þeim tíma sem myndin var tekin voru túnfiskveiðar í hámarki suður af landinu. Því gæti hafa verið um túnfiskveiðiskip að ræða.

Þegar spurt er um takmarkaða eftirlitsgetu segir í svari til Fiskifrétta að stjórnvöld hafi þegar brugðist við þessum veruleika. Á fimm ára fjármálaáætlun sé t.d. gert ráð fyrir aukinni viðveru flugvélar Gæslunnar hér við land með auknu rekstrarfé.

Úthaldsdögum varðskipa fjölgaði árið 2018 samanborið við árið 2017 og það hafi sitt að segja.

„Þá verður sjöttu þyrluáhöfninni bætt við á þessu ári sem eykur viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar mikið á hafinu umhverfis Ísland. Sömuleiðis má nefna að í apríl hefst tilraunaverkefni með flygildi í samstarfi við EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, þar sem ómönnuð loftför verða prófuð til eftirlits á hafinu umhverfis landið,“ segir í svarinu til Fiskifrétta.