Englafjárfestirinn Erik Byrenius stendur á bak við vefsíðuna Startupdocs.is sem var opnuð í síðustu viku. Síðan, sem er ókeypis, var unnin í samstarfi við lögfræðistofuna Lagahvoll sem einnig gaf vinnu sína við hana. Um er að ræða hugsjónastarf sem Erik hóf þegar hann sá að það vantaði aðgengilegan ramma utan um samkomulag fjárfesta og frumkvöðla. Hann er jafnframt einn stofnenda englafjárfestahópsins Nordic Makers.

„Ég hef verið frumkvöðull en eftir að ég seldi mig út úr fyrirtækinu mínu, OnlinePizza, fór ég út í englafjárfestingar og átti fundi með ýmsum fyrirtækjum sem ég var spenntur fyrir. En þegar ég fór að spyrjast fyrir um hvað væru venjuleg skilyrði fyrir samkomulag fjárfesta á fyrstu stigum og frumkvöðla þá komst ég að því að það var enginn sérstakur rammi til um það hver væru réttindi og skyldur fjárfesta og frumkvöðla, heldur var hver og einn með mismunandi skilyrði í mismunandi fjárfestingum,“ segir Erik.

„Til dæmis réttindi þín sem fjárfestis þegar kemur að viðbótarfjárfestingum, aðkomu að stjórn, hvort stofnendurnir hafi skyldu til að vinna í og byggja upp fyrirtækið áfram og þá hve lengi, hvað gerist til dæmis ef þeir fara út eftir hálft ár og svo framvegis. Einnig hvort fjárfestar hefðu forgangskröfur á endurheimt fjárfestingar sinnar eða hvort allt hlutafé væri jafnmikið metið við uppgjör.“

Í kjölfarið ákvað Erik að búa til sinn eigin ramma um reglurnar þannig að nóg væri að fylla þau út lagaskjölin með nafni fyrirtækjanna og þeirra sem að fjárfestingunni komu.

„Ég ákvað að ekki einungis nota þennan ramma um fjárfestingarnar sjálfur, heldur að birta þær. Eftir að hafa svo fengið lögfræðing með mér í lið þá var ég kominn með öll helstu lagaskjölin tilbúin, hvort sem það var fyrir fyrstu söfnun fjárfesta, fjárfestingarskjölin sjálf sem og hluthafasamkomulagið sem nýtt eru í fyrirtækinu,“ segir Erik sem síðar bætti við fleiri skjölum eins og ráðningarsamningum.

„Ég byrjaði með þetta heima í Svíþjóð fyrir þremur árum og ég var ekki með nein plön um að gera meira, en þetta varð svo vinsælt að ég fór að bæta við fleiri skjölum og að endingu ákvað ég að prófa þetta í fleiri löndum. Ísland er fjórða landið í röðinni, eftir Noregi og Danmörku, enda byrjaði ég í þeim löndum þar sem ég er með besta tengslanetið og þekki fólk sem er tilbúið að hjálpa, auk þess sem lagaumgjörðin er svipuð. Nú er ég að plana að fara til fleiri landa, því það eru nokkur stór Evrópulönd þar sem erfitt er að finna lagaskjöl fyrir frumkvöðlafyrirtæki sem eru aðgengileg á netinu.“